11. júní 2014 voru 20 ár síðan fyrsta sveitarfélagið með nafninu Borgarbyggð var stofnað. Það varð til við sameiningu sveitarfélaganna Borgarnesbæjar, Hraunhrepps, Stafholtstungnahrepps og Norðurárdalshrepps í júní 1994. Árið 1998 varð frekari sameining þegar þáverandi Borgarbyggð, Borgarhreppur, Álftaneshreppur og Þverárhlíðarhreppur sameinuðust undir heiti Borgarbyggðar. Sama ár sameinuðust sveitarfélögin Andakílshreppur, Lundarreykjadalshreppur, Reykholtsdalshreppur og Hálsahreppur í eitt sveitarfélag sem fékk nafnið Borgarfjarðarsveit.
Á árinu 2006 varð til sú Borgarbyggð sem nú er, en þá sameinuðust Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur og Kolbeinsstaðahreppur í eitt sveitarfélag.