200. fundur sveitarstjórnar haldinn hátíðlegur

ágúst 20, 2020
Featured image for “200. fundur sveitarstjórnar haldinn hátíðlegur”

Þann 13. ágúst síðastliðinn var 200. fundur sveitarstjórnar haldinn hátíðlegur í menningarhúsinu Hjálmakletti. Fundurinn var með breyttu sniði en Covid-19 faraldurinn hefur sett strik í reikninginn undanfarna mánuði og sveitarstjórnarfundir hafa verið haldnir með óhefðbundnum hætti síðan í vor.

Fyrst um sinn voru sveitarstjórnarfundir haldnir í gegnum fjarfundabúnað og þegar líða tók á sumarið var ákveðið að nýta Hjálmaklett til fundahalda en þar er frábæra fundaraðstaða fyrir litla sem og stóra hópa. Slíkt fyrirkomulag hefur reynst vel en gripið var til þessara aðgerðar til þess að tryggja að allir nefndarmenn gætu setið með tvo metra á milli sín ásamt því að sinna einstaklingsbundnum smitvörnum. Sveitarfélög hafa nú aftur fengið heimild til að halda fundi með stafrænum hætti og í ljósi aðstæðna í samfélaginu mun hluti funda í stjórnsýslunni fara fram í gegnum fjarfundabúnað í haust.

Gætt verður allra varúðarráðstafana á fundum á vegum sveitarfélagsins þar sem fundarmenn eru beðnir um að spritta hendur fyrir og eftir fundarhöld. Í þeim aðstæðum þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna milli fundarmanna, eru fundarmenn beðnir um að setja á sig grímur. Enn fremur er spritt til staðar til að þrífa sameiginlega snertifleti.

Á myndinni eru, talið frá vinstri: Guðveig Eyglóardóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Finnbogi Leifsson, Davíð Sigurðsson, Guðmundur Freyr Kristbergsson, Lilja Björg Ágústsdóttir, Magnús Smári Snorrason, Silja Eyrún Steingrímsdóttir og Brynja Þorsteinsdóttir.

 


Share: