140 ára verslunarafmæli Borgarness

mars 21, 2007
Þann 22. mars 2007 eru liðin 140 ár síðan Borgarnes fékk konunglegt leyfi sem verslunarstaður. Óhætt er að segja að löggildingin hafi markað mikil tímamót í sögu Borgarness og þar með sveitanna í kring. Í tilefni af afmælinu, sem er í raun jafnframt afmæli Borgarness, verður blásið til afmælisveislu í Landnámssetrinu við Búðarklett í Borgarnesi fimmtudaginn 22. mars, en á þeim stað hófst verslun árið 1877. Það er Borgarbyggð og verslunareigendur sem standa sameiginlega að afmælinu.
Íbúar Borgarbyggðar eru hvattir til að minnast þessara tímamóta. Farið verður í skrúðgöngu frá Hyrnutorgi kl. 15.00 undir forystu lúðrasveitar af Akranesi og unglinga úr Félagsmiðstöðinni Óðali í Borgarnesi. Verði veðrið okkur ekki hagstætt þá spilar hljómsveitin fyrir utan Hyrnutorgið kl. 15.00 og svo aftur fyrir utan Landnámssetrið kl. 15.45. Afmælisdagskrá hefst í Landnámssetrinu kl. 16.00.
Allir sem hafa yfirráð yfir fánastöngum í Borgarnesi eru hvattir til að minnast afmælisins með því að flagga íslenska fánanum fimmtudaginn 22. mars. Það var siður hér á árum áður að flagga ávallt þennan dag og er hér með hvatt til þess að Borgnesingar endurveki þann gamla og góða sið.
 
Dagskrá í tilefni af 140 ára verslunarafmæli Borgarness 22. mars 2007
 
Kl. 15.00 fer Skólahljómsveit Akraness, undir stjórn Önnu Bjarkar Nikulásardóttur, fyrir skrúðgöngu frá Hyrnutorgi að Landnámssetri í traustri fylgd unglinga úr Óðali í Borgarnesi. Íbúar Borgarbyggðar eru hvattir til að taka þátt í göngunni og/eða að fylgjast með henni.
 
Kl. 16.00 hefst afmælisdagskrá í Landnámssetrinu. Boðið verður upp á afmælisköku (frá Geirabakaríi) og kaffi og ávaxtadrykki (frá JGR heildverslun). Dagskrárliðir eru ekki kyrfilega tímasettir en þeir verða í eftirfarandi röð á milli 16.00-18.00.
Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar flytur ávarp.
Viðurkenning veitt úr Menningarsjóði Borgarbyggðar til listarmanns fyrir framlag til menningarstarfs í héraði. Sigríður Björk Jónsdóttir, formaður menningarnefndar veitir viðurkenninguna.
Krakkar úr Tónlistarskóla Borgarfjarðar flytja lög úr söngleiknum Mjallhvíti, undir stjórn Theodóru Þorsteinsdóttur.
MÁVA kvartettinnsyngur nokkur lög. Kvartettinn skipa Magnús Árni Magnússon, Ásdís Haraldsdóttir, Viðar Guðmundson og A. Agnes Gunnarsdóttir.
Sögustund fyrir börnin á Söguloftinu. Ása Hlín segir sögur um kl. 16.30.
Verslunarsöguhringur með Finnboga Rögnvaldssyni um kl. 16.30.
Hljómsveit Tónlistarskóli Borgarfjarðar leikur undir stjórn Ólafs Flosasonar. Hljómsveitin er að koma í fyrsta sinn fram opinberlega.
Eva Margrét Eiríksdóttir úr Grunnskóla Borgarfjarðar syngur. Hún varð í 2. sæti í söngvakeppni Samfés nú á dögunum.
Jóhannes Kristjánsson eftirherma skemmtir.
Borgarnes 100 ára. Kvikmynd Einars Ingimundarsonar frá 1967 sýnd á Söguloftinu. Sýningin hefst eftir að sögustund barnanna lýkur, eða um kl. 17.00 og verður sýnd til kl. 18.00 (sýningartími er 12 mínútur).
Á milli atriða mun Steinunn Pálsdóttir flytja létta tónlist ásamt nemendum úr Laugargerðisskóla. Nemendurnir eru þau Halla Sif Svansdóttir, Monika Kavalaite og Þorleifur Halldórsson.
Veislustjórinn er Borgnesingurinn Héðinn Unnsteinsson.
Safnahús Borgarfjarðar
Skjalasýning um sögu verslunar í Borgarnesi.
Sýningin verður opnuð kl. 13.00 á afmælisdaginn og stendur yfir á opnunartíma safnsins til aprílloka.
 
Hyrnutorg
Yfirlit yfir sögu verslunar í Borgarnesi.
Sýningin verður opnuð kl. 10.00 á afmælisdaginn og verður opin á opnunartíma verslana í Hyrnutorgi fram á vor.
 

Share: