Framkvæmdir við Grunnskólann í Borgarnesi ganga samkvæmt áætlun og er fyrirhugað að afhenda fyrri áfanga þann 9. ágúst nk. Stefnt er að því að setja skólastarf vetrarins í nýjum sal í haust. Í fyrri áfanga var gert ráð fyrir viðbyggingu sem inniheldur sal skólans og eldhús ásamt björtu kennslurými fyrir yngsta stig skólans á annarri hæð. Allar list- og verkgreinastofur skólans verða endurgerðar á fyrstu hæð, en þar verða stofur fyrir heimilisfræðikennslu, smíðakennslu, textíl- og myndmenntakennslu. Verður öll aðstaða til kennslu fyrir nemendur og starfsfólks til fyrirmyndar. Fyrirhugað er að efna til nafnasamkeppni á sal skólans meðal nemenda og kennara þegar skólinn hefst í haust. Verður íbúum Borgarbyggðar einnig boðið í heimsókn þegar skólastarfið er komið vel í gang.