Hamingja í Vinnuskólanum í Borgarnesi

júlí 22, 2019
Featured image for “Hamingja í Vinnuskólanum í Borgarnesi”

Nemendur Vinnuskólans lögðu ýmislegt af mörkum í viðleitni sinni til að fegra umhverfið í sumar. Máluðu nokkrir þeirra skilti sem á stendur „Borgarnes er happiness“ með vísan í að íbúar Borgarness séu hamingjusamir. Lýðheilsuvísar Embættis landlæknis styður við þessa upplifun nemenda Vinnuskólans en þeir sýna að hlutfallslega flestir fullorðnir eru hamingjusamir á Vesturlandi. Einnig sofa fleiri framhaldsskólanemendur nægilega lengi, en sýnt hefur verið fram á tengsl svefns og vellíðan.


 


Fjölmargir þættir hafa áhrif á heilsu og líðan einstaklinga. Sumum áhrifaþáttum heilsu er ekki hægt að breyta, til dæmis aldri og erfðum. Margir aðrir áhrifaþættir heilbrigðis eru hins vegar þess eðlis að hafa má áhrif á þá og stuðla þannig að bættri heilsu og vellíðan einstaklinga og minnka líkur á sjúkdómum. Má þar nefna lifnaðarhætti á borð við áfengis- og tóbaksneyslu, mataræði og hreyfingu og samskipti við fjölskyldu og vini. Með því að hafa heilsu og líðan að leiðarljósi í allri stefnumótun má skapa umhverfi og aðstæður, til dæmis í skólum, á vinnustöðum og í samfélögum almennt, sem stuðla að betri heilsu og vellíðan allra.


 


Í Borgarbyggð er unnið að heilsueflingu á heildrænan hátt í gegnum Heilsueflandi samfélag og Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem áhersla er lögð á að skapa aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan allra.


Share: