Íþrótta- og tómstundastyrkir vegna áhrifa COVID-19

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum þar sem markmiðið er að jafna tækifæri þeirra til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Söngleikur verður að kvikmynd

Tónlistarskóli Borgarfjarðar hefur í haust eins og undanfarin ár boðið upp á söngleikjadeild. Í haust eru 17 börn í deildinni á aldrinum 6 til 12 ára og hafa verið að æfa jólasöngleikinn Grenitréð.
Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri er tónlistarstjóri sýningarinnar, Sigríður Ásta Olgeirsdóttir leikstýrir og Birna Þorsteinsdóttir sér um hljóðfæraleik en hún samdi m.a. tvö lög í söngleiknum. Þegar ljóst var að ekki væri hægt að bjóða gestum á sýninguna vegna aðstæðna í þjóðfélaginu fékk Sigríður Ásta þá hugmynd að gera kvikmynd úr sýningunni í staðinn. Hún útskrifaðist leikari og sviðshöfundur síðastliðið vor, mitt í fyrstu bylgju Covid-19. Öll hennar lokaverkefni notuðust því mikið við myndmiðilinn og fékk hún því mikla og dýrmæta reynslu í kvikmyndagerð.
Byrjað var á að fara með börnin í Stúdíó Gott hljóð til Sissa (Sigurþórs Kristjánssonar) sem tók upp alla söngvana. Nú standa kvikmyndatökur yfir og er gaman að sjá hve mikla ánægju börnin hafa af þessu nýja formi leiklistar og eru að standa sig vel. Kvikmyndatökurnar fara fram víðsvegar í og um Borgarnes, inni og úti.
Áætlað er að tökum ljúki um miðjan desember og gert ráð fyrir að kvikmyndin verði klár til sýningar rétt fyrir jól fyrir börnin, aðstandendur þeirra og vini.

10. grænfáninn á Hvanneyri

Nemendur í Hvanneyrardeild GBF flögguðu 10. grænfánanum þann 10. desember. Skólinn var fyrstur allra skóla á Íslandi til þess og í tilefni af þeim tímamótum var forseta Íslands boðið að vera viðstaddur athöfnina, sem hann og þáði. Það er Landvernd sem hefur umsjón með grænfánaverkefninu, sem er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem hefur það að markmiði að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla.

Íþróttamaður Borgarfjarðar 2020

Íþróttamaður Borgarfjarðar er krýndur í lok árs. Íbúum gefst nú kostur á að tilnefna íþróttamenn sem þeim þykir hafa skarað fram úr á árinu 2020.
Senda skal tilnefningar á netfangið umsb@umsb.is fyrir 18. desember.

Rafmagnslaust frá Deildartungu að Augastöðum 11. desember

Rafmagnslaust verður frá Deildartungu að Augastöðum 11.12.2020 frá kl 00:00 til kl 04:00 vegna vinnu við háspennudreifikerfið. Nánari upplýsingar veitir Svæðisvakt RARIK Vesturlandi í síma 528 9390 og kort af svæðinu má sjá á www.rarik.is/rof.

Sundlaugar opna á ný

Sundlaugar opna aftur í dag samkvæmt nýrri reglugerð um takmörkun á samkomum. Heimilt verður að hafa opið fyrir allt að 50% af hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi.

Þetta þýðir auðvitað að eftir langt hlé verður loksins hægt að bjóða gesti aftur velkomna í sundlaugarnar í Borgarbyggð.

Sundlaugin í Borgarnesi á hefðbundnum opnunartíma og sundlaugin á Kleppjárnsreykjum milli 19:00 og 22:00 á fimmtudagskvöldum og 13:00-18:00 á sunnudögum.

Við hlökkum til að sjá ykkur