Nýjar reglur um efnistöku úr eldri námum

febrúar 22, 2008
Vakin er athygli á breyttum ákvæðum laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Samkvæmt þeim er efnistaka úr námum sem teknar voru í notkun fyrir 1. júlí 1999 óheimil frá 1. júlí 2008, nema að fengnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eigi eitt eða fleiri af eftirfarandi atriðum við um efnistökuna:
a. áætluð er stækkun efnistökusvæðis um 25.000 m² eða meira,
b. áætluð efnistaka eftir 1. júlí 2008 er 50.000 m³ eða meiri,
c. áætluð er samanlögð stækkun tveggja eða fleiri efnistökustaða vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði um 25.000 m² eða meira,
d. efnistakan fer fram á verndarsvæði, sbr. iii. lið 2. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, eða á svæði sem fyrirhugað er að verði friðlýst samkvæmt náttúruverndaráætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi.
Við veitingu framkvæmdaleyfis skv. skipulags- og byggingarlögum skal fylgja ákvæðum 48. og 49. gr. laga um náttúruvernd.
Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, gilda um efnistöku samkvæmt ofangreindu.
Eftir 1. júlí 2012 skal afla framkvæmdaleyfis fyrir allri efnistöku á svæðum þar sem efnistaka var hafin fyrir 1. júlí 1999 í samræmi við VI. kafla laga um náttúruvernd.
Sveitarstjórnir bera ábyrgð á eftirliti með efnistöku og að framkvæmdir séu í samræmi við útgefin framkvæmdaleyfi.
Mynd: Björg Gunnarsdóttir

Share: