Það er í nógu að snúast hjá starfsfólki umhverfis- og framkvæmdadeildar í sveitarfélaginu um þessar mundir.
Gatnagerð
Nú standa yfir framkvæmdir við gatnagerð í Borgarnesi, Hvanneyri og áætlað er að fara í frekari verkefni á árinu.
Í Flatahverfi á Hvanneyri er unnið að gatnagerð í Þrastarflöt, Ugluflöt og Hrafnaflöt. Unnið er að lagnavinnu og áætlað er að verkinu verði að fullu lokið í byrjun sumars.
Gatnaframkvæmdir
Áfram verður unnið í Borgarbrautinni á árinu; gert er ráð fyrir að öðrum áfanga verði lokið í vor, og hefst þá vinna við þriðja og síðasta áfangann. Á vordögum mun hjáleið færast af Berugötu og yfir á Þorsteinsgötu og Skallagrímsgötu.
Þá verður lokið við framkvæmdir við Birkihlíð á Varmalandi í byrjun sumars.
Hönnunarvinna
Hönnunarvinna vegna lagfæringa á Sæunnargötu er hafin en gert er ráð fyrir að hefja endurbætur á götunni, milli Berugötu og Þórólfsgötu á þessu ári.
Ekki hafa verið staðfestar tímasetningar varðandi þá framkvæmd, en gert er ráð fyrir að sú framkvæmd hefjist í haust.
Strandstígur
Þá er gaman að segja frá því að hafin er undirbúningsvinna vegna framkvæmda við strandstíginn í Borgarnesi, samkvæmt hönnun sem samþykkt var í sveitarstjórn.
Ábendingar
Íbúar eru sem fyrr hvattir til þess að senda inn ábendingu um það sem betur má fara eða lagfæra í gegnum ábendingagátt sveitarfélagsins.