Frá framkvæmdasviði: Inn á heimasíðuna undir umhverfismál hefur verið sett skrá með yfirliti yfir gróðursetningar í Einkunnum frá 1954-1989. Trén voru aðallega gróðursett af Skógræktarfélaginu Ösp, en svo nefndist Borgarnesdeild Skógræktarfélags Borgarfjarðar. Ekki eru til skrár um umfang gróðursetningar eftir 1989 en auðsjáanlegt þegar gengið er um svæðið að eitthvað hefur verið gert. Þeir sem luma á upplýsingum um þær gróðursetningar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við undirritaða.
Það má segja að skógurinn í Einkunnum sé barn síns tíma. Líkt og á svo mörgum öðrum skógræktarsvæðum frá þessum upphafsárum skógræktar á landinu, fór vöxtur hægt af stað, enda skorti töluvert uppá að menn kynnu að velja saman land og tré. Nú eru hinsvegar komnir mjög myndarlegir lundir, þar sem vel tókst til og aðrar gróðursetningar orðnar allt í senn, fróðlegar, skemmtilegar og til prýði. Þarna eru semsagt ágætist skilyrði til trjáræktar og full ástæða til að nýta í auknu mæli tré til skjóls og prýði. Fyrst og fremst þarf samt að fjölga tegundum til að auka fjölbreytileika skógarins. Sú vinna er að einhverju leitið hafin, en að frumkvæði starfsfólks vinnuskólans hafa einstök tré sem þurft hefur að fjarlægja úr Borgarnesi verið flutt upp í Einkunnir.
Björg Gunnarsdóttir
Umhverfisfulltrúi