Skipulagsmál kynnt

febrúar 1, 2007
Um 120 manns mættu á kynningarfund um skipulagsmál í Borgarbyggð á Hótel Borgarnesi s.l. mánudag. Eftirtaldir fluttu framsöguerindi: Sigurður Páll Harðarson, forstöðumaður framkvæmdasviðs, Torfi Jóhannesson formaður skipulagsnefndar, Ríkharð Briem arkítekt og Páll Brynjarsson sveitarstjóri. Fjallað var aðallega um eftirfarandi:
 

 
Fleiri skipulagsmál í Borgarnesi voru rædd að loknum framsöguerindum.
Fram kom m.a. að um 40 skipulagsmál eru í gangi hjá sveitarfélaginu um þessar mundir og því mikið að gerast. Þar á meðal er eftirfarandi: aðalskipulag Borgarbyggðar, skipulag í Brákarey, skipulag á landinu vestan Borgarvogar og á landi við Kárastaði, aðalskipulag á Bifröst ásamt deiliskipulagi íbúðahverfa auk nýrra og breyttra frístundahverfa.
Ennfremur kom fram að nú er hægt að senda inn ábendingar um skipulagsmál á vef sveitarfélagsins, og hefur sú nýjung hlotið góðar viðtökur.
Stutt ágrip úr framsöguerindum:
Upphaf byggðar handan Borgarvogar
Páll Brynjarsson kynnti hugmyndir sem Eykt ehf hefur lagt fyrir sveitarstjórn, um byggðina vestan Borgarvogar. Svæðið er alls um 270 hektarar og komst í eigu Borgarneshrepps árið 1975. Síðan var uppbyggingu þar frestað og byggt þess í stað upp í Bjargslandi. Landlínum var falið að gera rammaskipulag af svæðinu og þeim hugmyndum verður skilað inn til byggðaráðs í þessari viku.
Eykt vill fara í viðræður um að kaupa 50-60 hektara af þessu svæði. Þarna væri hægt að reisa íbúðabyggð með 500-600 íbúðum ásamt húsnæði undir þjónustu og verslanir og þetta myndi byggjast upp á næstu 12-15 árum. Við þetta myndi byggð í Borgarnesi nærri tvöfaldast. Sveitarfélagið yrði alltaf aðili að allri skipulagsvinnu á svæðinu. Byggðaráð hefur ekki tekið formlega afstöðu til erindisins en verið er að kanna kosti og galla þessa fyrirkomulags.
Nýtt íbúðahverfi í Bjargslandi
Ríkharð Briem sýndi deiliskipulagsuppdrátt (vinnuteikningu) þar sem nýtt hverfi kemur fram ásamt tengdu verslunarsvæði. Um 5 hektara land verður notað undir íbúðabyggð og þar af verður um 2/3 sett undir sérbýli og 1/3 undir fjölbýli. Fjölbýli er á 3-4 hæðum og einnig er gert ráð fyrir parhúsum. Samtals verða þetta um 90 íbúðir og verður ein innkeyrsla inn í hverfið. Reiknað er með að fyrstu lóðum á þessu svæði verði úthlutað strax í vor. Lóðir verði byggingahæfar í september /október 2007
Skipulag við Borgarbraut 55-59
Eftirfarandi hefur verið haft að leiðarljósi við skipulagsvinnu á þessum stað:

  • Nýi miðbærinn verði „miðbær“
  • Þétting byggðar frekar en landfyllingar
  • Íbúðabyggingar með möguleika á þjónustu á neðstu hæðunum.
  • Dregið úr hraða á Borgarbraut
  • Aðstaða fyrir gangandi vegfarendur verði bætt

  • Svæðið verði skipulagt sem heild ásamt götunni
  • Aðkoman sé nánast eingöngu frá Borgarbraut
  • Húsin verða dregin nær Borgarbraut (til að lágmarka skuggavarp)
  • Bílageymsla B-59 verði alfarið í kjallara

Athugasemdafrestur við skipulagið hefur verið framlengdur um viku: til 6.2.2007
Veitingahús við Hrafnaklett
Staðsetning veitingahúss (,,Kaffi Nauthóll”) við Hrafnaklett er í skoðun og hefur hlotið jákvæðar undirtektir það sem af er. En fara þarf fram deiliskipulagsvinna og breyting á aðalskipulagi svo málið er á stigi forkynningar.
 
Ljósmynd með frétt: Jökull Helgason

Share: