Bókasafnsdagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land í vikunni og er markmiðið með deginum að minna á mikilvægi bókasafna. Auk þess er dagurinn tileinkaður starfsmönnum bókasafnanna.
Héraðsbókasafnið fékk góða heimsókn á þriðjudaginn s.l. þegar elstu börnin í leikskólanum Klettaborg komu og fengu lánþegaskírteini hjá Sævari Inga Jónssyni héraðsbókaverði. Önnur börn fengu skírteini afhent á sínum leikskóla síðar um daginn. Er þetta gert í tilefni af Degi læsis sem var einnig sama dag.
Af þessu tilefni var einnig birt útstilling á safninu á sögu glæpasagnaformsins á Íslandi undir yfirskrift dagsins ,,Lestur er bestur, hryllilega spennandi“.
Íbúar sem og aðrir gestir eru hvattir til þess að líta við á bókasafninu, það er að venju opið frá kl. 13:00 – 18:00.