Starfsári Tónlistarskóla Borgarfjarðar að ljúka

maí 22, 2020
Featured image for “Starfsári Tónlistarskóla Borgarfjarðar að ljúka”

Þá fer vetrarstarfi Tónlistarskóla Borgarfjarðar að ljúka þetta árið. Tónlistarskólinn líkt og aðrar stofnanir, hefur ekki farið varhluta af ástandinu í samfélaginu. Með samstilltu átaki og samvinnu hefur tekist vel að takast á við þær áskoranir sem hafa komið upp. Í samkomubanninu byrjuðu kennarar að kenna fjarkennslu og má segja að það hafi tekist vel til. Tónlistarkennarar og nemendur eiga hrós skilið fyrir að aðlaga sig að þessum breyttum aðstæðum, prófa nýja tækni og finna nýtt efni. Auk þess eiga foreldrar hrós skilið fyrir stuðninginn heima fyrir. 

Að venju eru próf og tónleikar í maí en að þessu sinni var ákveðið að sleppa tónleikahaldi. Þess í stað var ákveðið að kennarar mundu senda foreldrum upptökur af börnunum úr tímunum og mæltist það vel fyrir.

Það má með sanni segja að samfélagið sé hliðhollt Tónlistarskólanum og hugsi hlýlega til hans. Á dögunum kom Hljómlistarfélag Borgarfjarðar færandi hendi líkt og hefur verið fjallað um og Tónlistarfélag Borgarfjarðar sem hefur nú hætt starfsemi, færði skólanum í ársbyrjun fjárhæð til hljóðfærakaupa. Upphæðin var meðal annars nýtt til fjárfestinga á NINO ásláttarkassa fyrir yngstu nemendurna.  Tónlistarskóli Borgarfjarðar þakkar þessum aðilum og öðrum velunnurum skólans fyrir hlýhug og góðvild.

Byrjað er að taka við nýjum umsóknum fyrir veturinn 2020-2021 og er hér að finna umsóknareyðublað.

Upplýsingar um tónlistarnámið eru veittar í síma 433 7190 / 864 2539 og einnig hægt að senda tölvupóst á tonlistarskoli@borgarbyggd.is

 

 

 

 

 

 

 

Mynd: Forskólabörn í tíma með Birnu

 


Share: