Nú hefur brúnu tunnunni verið dreift við hluta heimila í Borgarnesi og verður dreift á öll heimili á næstu dögum og vikum.
Vegna COVID-19 er ekki talið ráðlagt að ganga í hús með leiðbeiningar til íbúa og því er farin sú leið að skilja eftir tunnu og ílát fyrir utan heimilin. Dreifibréf verður sent á öll heimili en þar sem póstþjónusta er skert er óvíst hvenær það berst til íbúa, vonandi sem fyrst.
Á íbúafundum fyrr í vetur var farið vel yfir leiðbeiningar um flokkun og hér má sjá kynningarefni frá Íslenska Gámafélaginu um flokkun.
Þá er aðgengileg flokkunartafla fyrir brúnu tunnuna hér
Því til viðbótar er að finna mikið af gagnlegum upplýsingum inni á heimasíðu Íslenska Gámafélagsins, t.d. undir liðnum Flokkun og fræðsla.
Flokkun lífræns úrgangs er mikilvægt framlag til loftslagsmála, enda er lífrænn eldhúsúrgangur er ekki rusl heldur hráefni sem hægt er endurvinna og framleiða jarðvegsbæti og söfnun lífræns úrgangs til endurvinnslu samræmist hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Þegar lífrænn úrgangur er urðaður glatast mikilvæg lífræn efni og þá myndast metan í urðunarstaðnum sem er margfalt áhrifaríkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.
Í lögum um meðhöndlun úrgangs kemur fram að lífrænan úrgang skuli nota en ekki urða og í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar eru settar fram áætlanir um urðunarskatt og bann við urðun lífræns úrgangs.
Því eru allir íbúar hvattir til að taka þátt í verkefninu með opnum hug og taka skrefið í átt til jákvæðra breytinga með sveitarfélaginu.
Allar fyrirspurnir, athugasemdir og ábendingdar varðandi brúnu tunnuna skal senda á borgarbyggd@borgarbyggd.is