Uppfært – Upplýsingar um lokanir á stofnunum Borgarbyggðar vegna veðurs

desember 10, 2019
Featured image for “Uppfært – Upplýsingar um lokanir á stofnunum Borgarbyggðar vegna veðurs”

Hér koma upplýsingar sem liggja fyrir núna um lokanir á stofnunum Borgarbyggðar 10. desember 2019 vegna veðurs. Fréttin verður uppfærð.

Síðast uppfært kl.:  12:10 10.12.2019

Gámastöðin við Sólbakka

Vel tókst til að ljúka sorphirðu í Borgarnesi samkvæmt sorphirðudagatali í dag en hirðing grænu tunnunnar öðrum þéttbýliskjörnum verður slegið á frest þar til veður hefur gengið yfir.

Gámastöðinni við Sólbakka getur verið lokað fyrirvaralaust síðar í dag ef starfsmenn telja hættu á ferðum. Staðan verður svo tekin í fyrramálið varðandi afgreiðslutíma á morgun.

 Íbúar eru góðfúslega minntir á að festa tunnur tryggilega eða koma þeim í skjól, og sama gildir um aðra lausamuni sem geta farið af stað í rokinu. 

Grunnskóli Borgarfjarðar

Skólahald fellur niður í Kleppjárnsreykjadeild og Varmalandsdeild. Skólaakstur fellur sömuleiðis niður.

Hvanneyrardeild verður opinn fram að hádegi eins og staðan er núna. Ekki verður skólaakstur og viðbúið er að starfsemin verði óhefðbundin. Foreldrar eru beðnir um að sækja börnin sín í skólann fyrir kl. 12:00.

Ef foreldrar velja að hafa börnin sín heima eru þeir beðnir um að láta skólann vita.

Grunnskólinn í Borgarnesi

Skólinn lokar fyrr í dag. Innanbæjarbíllinn fer með yngri börnin kl 11:30 og svo fer seinni bíllinn kl 12:00.

Öryggi nemenda og starfsfólks skiptir öllu máli. 

Frístund

Frístund verður lokuð í dag.

Leikskólar

Foreldrar eru hvattir til að sækja börnin fyrr. Það gæti verið erfitt að komast að skólunum seinnipartinn í dag og hugsanlega verða lokanir á miðvikudagsmorgun ef starfsfólk kemst ekki til vinnu.

Foreldrar eru hvattir til að meta stöðuna út frá skilaboðum Veðurstofu Ísland og hafa öryggi barnanna í fyrirrúmi.

        Klettaborg

Vegna slæmrar veðurspár er mikilvægt að foreldrar sæki börn sín um hádegi í dag svo allir; börn, foreldrar og starfsmenn, komist heilu og höldnu heim til sín.

Hafa þarf í huga að sterkir vindstrengir geta myndast við leikskólann og á bílaplaninu -nauðsynlegt er að hafa öryggi allra í fyrirrúmi.

        Hnoðraból

Lokað í dag

Aldan

Þriðjudaginn 10. desember verður opið frá kl. 9:10-12:30.

Dósamóttakan

Þriðjudaginn 10. desember verður lokað.

Tónlistarskóli Borgarfjarðar

Tónlistarskólinn hefur aflýst kennslu eftir hádegi í dag þar sem óvíst er að menn komist á milli staða. Öryggi nemenda og starfsfólks skiptir öllu máli.

Íþróttamiðstöðin 

Opnun helst óbreytt í dag 10. desember.

Safnahús

Opnunartími verður styttur í dag og einungis opið til 14.00 ef verstu spár ganga eftir. Við biðjum fólk að fylgjast með á heimasíðu Safnahúss (safnahus.is) og taka enga áhættu nema brýna nauðsyn beri til. Forstöðumaður svarar í síma 898 9498 til kl. 18.00 ef þörf er á afgreiðslu eða annarri aðstoð.

 Fólk er hvatt til að sýna aðgát í veðrinu í dag og á morgun!


Share: