Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á leik- grunn- og framhaldsskólum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í ytra mati felst að matsaðilar Menntamálastofnunar leggja mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Er það gert með skoðun á fyrirliggjandi gögnum um starfsemi skólans, vettvangsheimsóknum matsaðila og viðtölum við börn/nemendur, starfsfólk skóla og foreldra.
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum er samkvæmt 35. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 að:
- Veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda.
- Tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla.
- Auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum.
- Tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.
Með ytra mati er unnið að öllum þessum markmiðum og lögð sérstök áhersla á að efla og styðja innra mat og gæðastjórnun skóla, styðja skóla, stjórnendur og kennara í umbótum á eigin starfi, hvetja kennara til að vinna saman að því að bæta eigin starfshætti og vera skólum hvati til frekari skólaþróunar.
Ytra mat var framkvæmt á Grunnskóla Borgarfjarðar vorið 2018 og voru fjórir þættir metnir; stjórnun, nám og kennsla, innra mat og skólabragur.
Í stórum dráttum má segja að í Grunnskóla Borgarfjarðar fari fram gæðastarf þar sem stuðst er við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og annað sem lögum samkvæmt snýr að þeim þáttum skólastarfs sem metnir voru. Sérstaða skólans er m.a. mikil umhverfismennt t.d. með þátttöku í Skólar á grænni grein og verkefnið Leiðtoginn í mér virðist áhrifaríkt og tengir vel saman einkunnarorðin gleði, heilbrigði, árangur.
Frekari upplýsingar um ytra mat á Grunnskóla Borgarfjarðar má nálgast á heimasíðu skólans, https://www.gbf.is/skolinn/gaedamal/