Betri bekkjarbragur – verkefni í grunnskólum Borgarbyggðar

maí 31, 2018
Featured image for “Betri bekkjarbragur – verkefni í grunnskólum Borgarbyggðar”

Styrkur hefur fengist frá Endurmenntunarsjóði grunnskóla til að standa að verkefni um betri bekkjarbrag í grunnskólum Borgarbyggðar veturinn 2018-2019.

Verkefnið felst í fræðslu, umræðum og mótun betri bekkjarbrags í öllum bekkjum grunnskóla Borgarbyggðar. Það verður gert með því að nýta starfsdaga, foreldrafundi og kennarafundi í umræður og fræðslu um hvað stuðlar að góðum bekkjarbrag og þar með góðum og jákvæðum skólabrag. Einnig að nýta ákveðnar kennslustundir í öllum bekkjum í fræðslu, umræður og mótun bekkjarsáttmála um samskipti. Þetta verður gert í anda Uppeldis til ábyrgðar í Grunnskólanum í Borgarnesi og samkvæmt hugmyndafræði Leiðtogans í mér í Grunnskóla Borgarfjarðar. Að auki verður lögð áhersla á að starfshættir teymisvinnu kennara og samvinnunáms nemenda ríki í skólunum.

Verkefnið verður sett af stað með  dagskrá / námskeiði að Varmalandi miðvikudaginn 15. ágúst 2018. Námskeiðið hefst kl. 9.00 með dagskrá undir stjórn Vöndu Sigurgeirsdóttur um leiðir til að efla bekkjar- og skólabrag. Eftir hádegishlé taka við nokkur stutt námskeið, m.a. með Ása Helga Ragnarsdóttir leikari og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fjalla um leikir og leiklist til að efla bekkjarbrag. Lilja M. Jónsdóttir lektor við Menntavísindasvið mun bjóða námskeið um hvernig efla má bekkjarbrag á mið- og unglingastigi og lýðræðislegum kennsluháttum – og fleiri leiðum. Þá hefur verið leitað til Önnu Lindar Pétursdóttur yfirsálfræðings hjá Kópavogsbæ og dósents við Menntavísindasvið um að halda námskeið um aðferðir við að taka á erfiðum hegðunarvandamálum.


Share: