Á málþingi um sögutengda ferðaþjónustu

janúar 19, 2009
Samtök um sögutengda ferðaþjónustu héldu opið málþing á Hótel Hamri við Borgarnes s.l. föstudag. Yfirskrift málþingsins var Söguslóðir í héraði Farið var yfir margar athyglisverðar hugmyndir á fundinum sem var vel sóttur, m.a. af fólki í sögutengdri ferðaþjónustu á Vesturlandi.
Á málþinginu fluttu eftirtalin erindi:
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, Eggert Þór Bernharðsson, sagnfræðingur og dósent í hagnýtri menningarmiðlun, Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður Þórbergsseturs, Helmut Lugmayr, leiðsögumaður og ferðaskipuleggjandi hjá Terra Nova, Jón Baldur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Ísafold og Jónas Guðmundsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands.
 
Fundarstjóri var Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu.
Samtök um sögutengda ferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð að Þingeyrum í Húnavatnssýslu í maí 2006. Í samtökunum eru nú nær 50 aðilar um allt land og voru þau stofnuð í kjölfar þátttöku sjö þeirra í Evrópuverkefninu Destination Viking – Sagalands (2003-2005). Helsta markmið samtakanna er að vera samvinnu- og samráðsvettvangur þeirra er stunda sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi og að auka samvinnu í kynningarmálum, gæðamálum og stuðla að aukinni fagmennsku. Sjá heimasíðu samtakanna hér.
 
 
Ljósmynd: Rögnvaldur Guðmundsson.
 

Share: