Farsæl efri ár í Borgarbyggð

mars 2, 2018
Featured image for “Farsæl efri ár í Borgarbyggð”

Samráðsfundir um framtíðarstefnu Borgarbyggðar í málefnum aldraðra voru haldnir í félagsstarfi aldraðra að  Borgarbraut 65a og í félagsheimilinu Brún. Voru fundirnir haldnir í samstarfi Eldri borgara ráðs, Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum, Félags eldri borgara í Borgarnesi og nágrenni og Velferðarnefndar Borgarbyggðar.

Markmið samráðsfundanna var að leita svara við því hvernig stuðla megi að farsælum efri árum íbúa Borgarbyggðar. Góð mæting var á báða fundina og sköpuðust umræður um hvað sé gott við að eldast í Borgarbyggð og hvað eldri borgarar geta sjálfir gert til að stuðla að farsælum efri árum. Einnig var óskað eftir tillögum og hugmyndum um hvernig sveitarfélagið getur stuðlað að farsælum efri árum varðandi búsetulífsgæði, samgöngur og umhverfi, forvarnir og tómstundastarf. Að lokum var rætt um þátttöku og virkni eldri borgara og miðlun þeirrar þekkingar sem þeir búa yfir til yngri kynslóða t.d. með samstarfi eldri borgara og skóla.

Niðurstöður samráðsfundanna verða nýttar í stefnumótun í málefnum aldraðra og er áætlað að ný stefna til næstu ára verði sett í vor.

 

 


Share: