Eins og flestir hafa tekið eftir hófst snjómokstur í þéttbýlinu í Borgarbyggð heldur seinna en ástæða var til í gærmorgun en töluvert hafði snjóað við fótaferðartíma. Rétt er að skýra frá ástæðu þess að svo var. Ekki hafði verið gert ráð fyrir snjókomu í veðurspám fyrir nóttina og því kom hún starfsmönnum í opna skjöldu. Það gerist ekki oft. Starfsmenn Borgarverks voru því kallaðir heldur seinna til verka við að hreinsa götur í Borgarnesi en hefði þurft. Það tekur fyrirtækið síðan hátt í klukkutíma að gera klárt fyrir snjómoksturinn og því hófst hann ekki fyrr en raun bar vitni. Þegar áhaldahússmenn ætluðu að hefjast handa við að ryðja gangstéttir og annað það sem þeir annast þá kom upp smá bilun í græna traktor sveitarfélagsins þannig að það tafði þá um nokkra klukkutíma við að hefjast handa. Svona getur þetta verið og er það miður. Unnið var að mokstri og hreinsun langt fram á kvöld þannig að það var reynt að bregðast við eins og þurfti þegar allt var komið í gang. Þeir sem koma að snjómokstri leggja sig alla fram um að því verki sé sinnt eins vel og mögulegt er hér eftir sem hingað til.
Sveitarstjóri