Styrkur úr Sprotasjóði til skóla í Borgarbyggð

apríl 8, 2016
Featured image for “Styrkur úr Sprotasjóði til skóla í Borgarbyggð”

Mynd_1685880Sprotasjóður hefur samþykkt að veita skólum í Borgarbyggð styrk að upphæð 1.650.000 vegna verkefnisins: Hugarflug – nýsköpunarmennt í skólum í Borgarbyggð.
Markmið verkefnisins er að efla frumkvöðlastarf og nýsköpun í leikskólum, grunnskólum og Menntaskóla Borgarfjarðar og koma á samstarfi skóla við aðila á Vesturlandi sem styðja við frumkvöðla og nýsköpunarstarf. Verkefnið skiptist í sex þætti.
Stuðlað verður að samstarfi skóla í Borgarbyggð við aðila sem styðja við frumkvöðla og nýsköpunarstarf, svo sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi, Háskólann á Bifröst, Nýsköpunarmiðstöð Íslands í gegnum verkefnið Skapandi samfélag á Vesturlandi, Uppfinningaskólann Innoent á Íslandi og frumkvöðlafyrirtækið Creatrix svo að eitthvað sé nefnt.
Lögð verður áhersla á að efla nýsköpunar- og frumkvöðlahugsun á öllum sviðum skólastarfs í skólastefnu Borgarbyggðar. Staðið verður að fræðslu fyrir kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlakennslu sem felst í að hugsa nýjar hugmyndir og lausnir, hrinda þeim í framkvæmd og þjálfa nemendur í gagnrýninni hugsun og verklegri færni í hönnun og tækni. Lögð verður áhersla á að kennarar hafi fjóra þætti sköpunarferils í huga í öllum námsgreinum.
Leikskóla, grunnskólar og Menntaskóli Borgarfjarðar verða studdir í að móta skólanámskrá í nýsköpunarmennt og að þróa námsmat sem styður við og er í takt við nýsköpunarmennt. Einnig verður komið á námskeiðum fyrir nemendur í frumkvöðla- og nýsköpunarmennt í samstarfi við aðila í frumkvöðlastarfi sem föstum lið í kennslu og efla þátttöku nemenda í Borgarbyggð í Nýsköpunarkeppnum.
Verkefnastjóri verkefnisins verður Signý Óskarsdóttir.


Share: