Laugardaginn 6. maí n.k. kl. 15.00 verður nýtt Ráðhús Borgarbyggðar að Borgarbraut 14 vígt. Af því tilefni er íbúum boðið að koma og skoða húsið og þiggja veitingar. Í tengslum við opnun hússins munu börn Halldórs E. Sigurðssonar afhenda sveitarfélaginu gjöf til minningar um föður sinn, en Halldór var fyrsti sveitarstjórinn í Borgarnesi og á síðastliðnu ári voru liðin 50 ár frá því að Halldór kom til starfa hjá Borgarneshreppi. Einnig verður opnuð ljósmyndasýning sem spannar 50 ára tímabili í framkvæmdasögu Borgarness, en myndirnar eru allar teknar af Sigvalda Arasyni verktaka.
Borgarbyggð festi kaup á fasteigninni að Borgarbraut 14 árið 2004. Húsið var upphaflega byggt fyrir Sparisjóð Mýrasýslu árið 1961 og síðar var byggt við húsið árið 1980. Frá því í árslok 2005 hafa staðið yfir gagngerar breytingar á húsinu til þess að það nýtist sem best undir starfsemi bæjarskrifstofu, bæjarstjórnar og nefnda.
Páll Björgvinsson arkitekt hjá Teiknistofu Vesturlands teiknaði breytingarnar á húsinu. Byggingarstjóri var Guðmundur Eiríksson og aðalverktaki var Sólfell ehf. Undirverktakar hjá Sólfelli voru; Híbýlamálun Garðars, Blikksmiðja Guðmundar Hallgrímssonar, Múrsmíði, Sigmar H. Gunnarsson, Trésmiðjan Stígandi, Gólflagnir og Íslandslyftur. Um raflagnir sá Glitnir ehf, en ásamt þeim sá Hönnun hf. um hönnun raflagna. Öllum þessum aðilum er færðar þakkir fyrir vel unnin störf.
Það er ljóst að með nýju ráðhúsi mun aðstaða starfsmanna gjörbreytast, en húsið er 1053 m2. Allt aðgengi að þjónustu bæjarskrifstofu mun einnig breytast til batnaðar en lyftu hefur verið komið fyrir innan dyra og við vesturhlið hússins verður byggður rampur þannig að aðalinngangur hússins nýtist öllum þeim sem sækja þurfa þjónustu skrifstofunnar eða taka þátt í fundum.