Leikdeild Skallagríms frumsýndi í Lyngbrekku, síðastliðinn föstudag leikritið Skugga-Svein eftir Matthías Jochumsson í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Leikdeildin setur Skugga-Svein upp en það var síðast gert árið 1948 og fannst fólki kominn tími á að setja þetta vinsæla leikverk upp aftur.
Smellið á myndina til að sjá næstu sýningardaga.
Það vill líka svo skemmtilega til að um þessar mundir eru 150 ár síðan leikritið var fyrst sett á fjalirnar en þá var það sýnt í Gildaskálanum við Kirkjustræti 2 í Reykjavík.
Leikstjóraval var ekki erfitt því Rúnar Guðbrandsson er að leikstýra leikhópnum fimmtu uppsetninguna í röð og þekkir því orðið nánast hverja manneskju innan hans ansi vel.
Leikhópurinn kemur hvaðanæva að úr Borgarbyggð, enda sautján manns sem standa á sviði í þessari uppfærslu.
Æfingar gengu mjög vel en fjöldi fólks hefur unnið hörðum höndum að því að láta þessa uppsetningu verða að veruleika, enda ekki létt verk að setja upp svona stóra sýningu. Segja má að allmargir í sveitunum umhverfis Lyngbrekku hafi lagt lóð á vogaskálarnar við uppsetningu þessa verks með því að rjúka til í tíma og ótíma og draga leikhópinn í smærri eða stærri einingum upp úr sköflum eða skurðum og með því séð til þess að æfingar héldu áfram þrátt fyrir að veður og færð hafi verið með versta móti.