Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar |
Eignarhlutar í sameinuðu fyrirtæki skiptast þannig á mili hafnanna að Reykjavíkurhöfn mun eiga 75%, Grundartangahöfn 22% og Akraneshöfn 3%. Eignarhlutarnir skiptast þannig á milli sveitarfélaganna að Reykjavíkurborg á 75%, Akraneskaupstaður 10%, Borgarbyggð 3,828%, Hvalfjarðarstrandahreppur, Innri – Akraneshreppur, Leirár og Melahreppur og Skilmannahreppur 2,2%, hver um sig, Hérðaðsnefnd Borgarfjarðarsýslu (Borgarfjarðarsveit og Skorradalshreppur) 1,54% og Hvítársíðuhreppur 0,132%. Gert er ráð fyrir átta manna stjórn í hinu sameinaða fyrirtæki og mun Reykjavíkurborg skipa fimm stjórnarmenn, Akraneskaupstaður, sveitarfélögin í Borgarfirði norðan Skarðsheiðar einn og Sveitarfélögin í Borgarfirði sunnan Skarðsheiðar einn.
Samkvæmt viljayfirlýsingunni ætla eigendur sameinaðs fyrirtækis að tryggja að starfsmenn hafnanna fái vinnu í saminuðu fyrirtæki og haldi áunnum réttindum sínum.
Sveitarfélögin tíu stefna að því að Reykjavíkurhöfn verði áfram þróuð sem fjölbreytt inn og útflugtningshöfn og að unnið verði að því að bæta aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip þar. Gert er ráð fyrir að Akraneshöfn verði efld sem fiskihöfn og að aðstaða fyrir smábáta verði bætt í Borgarneshöfn. Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður Grundartangahöfn efld til að geta tekið við starfsemi sem fyrirhuguð var í Geldinganesi í Reykjavík hætt verði við fyrirhugaðar framkvæmdir þar.
Hraða uppbyggingu
“Þetta er gríðarlega stórt skref fyrir hafnirnar og þetta er gríðarlega stórt skref fyrir sveitarfélögin sem standa að þessu,” sagði Gísli Gíslason bæjarstjóri Akraness í samtali við Skessuhorn.
“Hér á þessu svæði mun þetta fyrst og fremst hraða uppbyggingu á Grundartanga sem er eitt öflugasta svæði landsins með tilliti til þess að byggja upp iðnað og hafnsækna starfsemi. Fyrir Akraneshöfn verður þetta styrking á þeirri höfn sem fiskihöfn og þegar sundabraut verður orðin að veruleika þá mun samstarf þessa svæðis frá Hítará og suður fyrir Reykjavík verða mun meira en er í dag.
Sundabraut
Í viljayfirlýsingunni um sameiningu hafnanna kemur fram að aðstandendur hennar ætli að stuðla að því að undirbúningi framkvæmda vði Sundabraut verði hraðað enda skipti hún miklu máli fyrir rekstur hafna hins nýja fyrirtækis. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra sagði að of snemmt væri að koma með yfirlýsingar um að Sundabraut yrði flýtt. Hann sagði að fyrsti áfangi hennar væri í umhverfismati en að heildarframkvæmdin væri það umfangsmikil að skoða yrði aðrar leiðir varðandi fjármögnun hennar en eingöngu af vegafé.
Samkvæmt upplýsingum Skessuhorn hefur nú þegar verið rætt við Slippstöðina í Reykjavík um hugsanlegan flutning fyrirtækisins á Grundartanga. Gísli Staðfestir að rætt hafi verið við fulltrúa Slippstöðvarinnar og að vel kunni að vera að skipaiðnaður verði einn sá þáttur sem skjóti rótum á Grundartanga í framtíðinni.