Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2004 samþykkt í bæjarstjórn

desember 16, 2003
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2004 gerir ráð fyrir að heildartekjur bæjarsjóðs og fyrirtækja sveitarfélagsins verði 923 milljónir, en þar af eru skatttekjur rúmar 730 milljónir eða tæp 80% af tekjum. Þá er gert ráð fyrir að rekstrargjöld og fjármagnsliðir verði 919 milljónir. Afgangur frá rekstri verður því rúmar 4 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað 31 milljón sem eru tæp 4% af heildartekjum og söluhagnaður eigna er áætlaður 35 milljónir.
Skatttekjur sveitarfélagsins hækka á milli ára um tæp 7% miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir árið 2003. Álagning útsvars er óbreytt, þjónustugjöld vegna vatnsveitu, fráveitu og sorphirðu hækka, en álagningarprósenta fasteignaskatts lækkar hins vegar.
 
Stærstum hluta rekstrarútgjalda, eða 445 milljónum er varið til fræðslu- og uppeldismála. Nemendum við grunnskóla sveitarfélagsins í Borgarnesi og á Varmalandi hefur fjölgað um tæplega 40 það sem af er árinu. Borgarbyggð hefur staðið vel að rekstri grunnskóla, en í báðum skólunum er boðið upp á mötuneyti og heilsdagsvistun. Borgarbyggð rekur þrjá leikskóla og taka þeir við börnum frá tveggja ára aldri. Aðrir málaflokkar sem taka hvað mest til sín í rekstri eru æskulýðs- og íþróttamál 99 milljónir, sameiginlegur kostnaður 80 milljónir, félagsþjónusta 49 milljónir og umhverfis- samgöngu- og skipulagsmál 32 milljónir.
 
Á árinu 2004 er áætlað að verja 87 milljónum til nýframkvæmda. Rúmum 40 milljónum verður varið til framkvæmda við skólamannvirki, en fyrirhugað er að byggja við leikskólann Klettaborg og leggja gervigrasvöll við Grunnskólann í Borgarnesi. Auk þess verður varið rúmum 30 milljónum til gatnagerðar í Borgarnesi, stærstu framkvæmdir í gatnagerð eru við Brúartorg en þar hyggst Sparisjóður Mýrasýslu reisa nýtt húsnæði undir starfsemi sína. Þá verður unnið áfram að skipulagsmálum í gamla miðbænum í Borgarnesi, en þar mun rísa íbúðarbyggð og þjónustu- og verslunarhúsnæði. Einnig verður unnið að deiliskipulagi á Varmalandi. Þá er áætlað að verja um 25 milljónum til viðhalds á fasteignum sveitarfélagsins og vegur þar þyngst að fyrirhugað er að skipta um gólf í íþróttahúsinu í Borgarnesi.

Gert er ráð fyrir að ný lántaka á árinu 2004 verði alls 136 milljónir og að afborganir eldri lána verði tæpar 135. milljónir. Því er áætlað að skuldir sveitarfélagsins munu aðeins aukast um eina og hálfa milljón. Ný lántaka verður því fyrst og fremst nýtt til greiða eldri skuldir.
 
Það sem af er árinu hefur íbúafjölgun í Borgarbyggð verið með því mesta á landinu. Á fyrstu níu mánuðum ársins voru aðfluttir íbúar umfram brottflutta alls 70. Fjölgun íbúa kallar vissulega á eflingu þjónustu og nýframkvæmdir hjá sveitarfélaginu. Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2004 tekur mið af þessu, hún gerir ráð fyrir aðhaldi í rekstri sem er nauðsynlegt til þess að áfram megi halda uppi háu þjónustustigi í sveitarfélaginu. En áætlunin endurspeglar líka bjartsýni á framtíð byggðarlagsins þar sem ráðist er í framkvæmdir og fjárfestingar sem eru forsenda fyrir íbúafjölgun.

Share: