Sameiginlegur fundur !

nóvember 18, 2003
Fulltrúar Menningar, íþrótta- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar dvöldu á Hótel Borgarnesi um helgina og voru að leggja lokahönd á fjárhagsáætlanagerð sína.
Tækifærið var notað til að slá upp sameiginlegum kynnis- og fræðslufundi með heimamönnum þar sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, fulltrúar úr Tómstundanefnd og Menningarmálanefnd Borgarbyggðar ásamt bæjarstjóra Páli S Brynjarsyni skiptust á hugmyndum og framtíðaráformum í þessum málaflokkum.
Ljóst er að mikill stærðarmunur er á þessum sveitarfélögum varðandi rekstur en samt er fjölmargt sem menn geta skoðað hver hjá öðrum eins og uppbygging sundlaugarmannvirkja, ferðaþjónustu, afþreyingu, safnamál, tómstundamál, frístundaskóli, niðurgreiðslur til ungra íþróttaiðkenda, samningar við félög og fleira áhugavert sem þarna kom fram. Reynsla annarra er alltaf dýrmæt og óþarfi að halda að menn séu alltaf að finna upp hjólið í þessum efnum sem og öðrum.
Sannarlega jákvætt og skemmtilegt samstarf sem þarna var á ferðinni. Stærsta verkefni framundan hjá Reykjanesbæ, sem þarna var kynnt, er bygging 50 metra innisundlaugar í Keflavík samtals rúmlega 400 millj. króna framkvæmd.

Share: