Hlíðartúnshúsin í Borgarnesi

janúar 9, 2014
Í sumar var unnið að við uppbyggingu Hlíðartúnshúsanna, við Borgarbraut í Borgarnesi. Verkefnið hefur á undanförnum árum, síðan árið 2009, hlotið styrk frá húsafriðunarsjóði Minjastofnunar Íslands.
Sumarið 2012 var lokið við endurnýjun kartöflukofans og sumarið 2013 var unnið við jarðvinnu og hlaðnar undirstöður fyrir hlöðuna.
Verktakar í verkinu voru HSS-Verktak jarðvinnuverktaki og Unnsteinn Elíasson hleðslumaður frá Ferjubakka auk annarra.
Sjálfa endurbyggingu húsanna hafa SÓ-Húsbyggingar annast.
Áríð 2014 á að klára þann hluta sem kemur ofaná grjóthleðslu hlöðunnar þ.e. veggi og þak en þeir eru úr timbri og bárujárni.
Umsjón og eftirlit með framkvæmdunum hefur verið á höndum Umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar.
Útihúsin við Hlíðartún voru reist árið 1919 og voru slík hús einkennandi fyrir Borgarnes á fyrstu áratugum byggðar þar, en þéttbýli myndast ekki á staðnum fyrr en líða fór á 20. öldina.
Íbúar Borgarness komu þá flestir úr sveitunum í kring og héldu búskap áfram eftir að í þorpið var komið. Því voru víða útihús í bæjarlandslaginu og sáust kindur, hestar og kýr á beit. Nánast allar þessar byggingar eru horfnar í dag, en þessi hús hafa fengið að standa. Þau eru einkar falleg í umhverfi sínu, gerð í burstastíl með hlöðnum veggjum og flest þök klædd með torfi. Fyrir nokkrum árum var svo komið að þau lágu undir skemmdum en vilji var til að bjarga þeim frá eyðileggingu. Það verkefni hefur verið í gangi frá árinu 2009 með tilstyrk Minjastofnunar Íslands (áður Húsafriðunarnefndar). Hlíðartúnshúsin eru verðugur fulltrúi búskaparlandslags síns tíma og draga að sér fjölda ferðamanna á ári hverju enda sjást þau orðið víða í ferðabæklingum þar sem fjallað er um Borgarnes.
 

Share: