Staðardagskrá 21 fer vel af stað

desember 14, 2001

Bæjarstjórn Borgarbyggðar hefur ákveðið að koma á Staðardagskrá 21. Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun hvers samfélags fyrir sig. Þessi áætlun er jafnframt forskrift að sjálfbærri þróun. Sjálfbær þróun gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða að mæta sínum þörfum.

Það er útbreiddur misskilningur að umhverfismál snúist að mestu leyti um sorp! Efnahagslegir og félagslegir þættir flokkast ekki síður en þeir vistfræðilegu undir hatt umhverfismála. Eitt aðalatriðið í hugmyndafræði Staðardagskrár 21 er að umhverfismál verði aldrei slitin úr samhengi við önnur mál, heldur beri að skoða áhrif mannsins á umhverfi sitt í víðum skilningi.

Stýrihópur verkefnisins í Borgarbyggð hefur ákveðið að taka fyrir alls 13 málaflokka. Málaflokkarnir eru: holræsi og fráveitur; úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum; vatnsból og gæði neysluvatns; Menningarminjar og náttúruvernd; umhverfisfræðsla í skólum; skipulagsmál; eyðing meindýra; atvinnulífið; opinber innkaup; neyslumynstur og lífstíll; ræktun og útivist; börn og unglingar; og eldri borgarar.

Eitt af megin markmiðum verkefnisins er að virkja íbúana til þátttöku. Þannig hefur öllum íbúum, félagasamtökum og fyrirtækjum verið boðin þátttaka í tengslahópi. Meðal hlutverka tengslahópsins eru að vera verkefnisstjóra og stýrihópi verkefnisins til ráðgjafar. Hópurinn mun líka gegna stóru hlutverki í markmiðssetningu fyrir hvern málaflokk. Nú þegar hafa 38 einstaklingar skráð sig til þátttöku og enn er verið að bæta við áhugasömu fólki.

Til að kynna verkefnið fyrir íbúum Borgarbyggðar var haldinn borgarafundur í Hótel Borgarness þann 22. nóvember sl. Þrátt fyrir aftakaveður mættu rúmlega 40 manns á þann fund. Í gærkvöldi, fimmtudaginn 13. desember, var haldinn fyrsti fundur tengslahópsins. Þar var mjög vel mætt og góðar umræður urðu. Hópurinn verður næst kallaður saman í janúar.

Þeir sem hafa áhuga á að starfa í tengslahópnum eða fá nánari upplýsingar um verkefnið eru hvattir til að hafa samband við verkefnisstjórann, Hólmfríði Sveinsdóttur. Símar hjá henni eru 437 1124 og 862 1104. Netfangið er: holmfridur@borgarbyggd.is. Áhugasömum er jafnframt bent á heimasíðu Stefáns Gíslasonar verkefnisstjóra Staðardagskrár 21 á Íslandi, en slóðin er www.samband.is/dagskra21/.


Share: