Fréttabréf Borgarbyggðar.

október 18, 2001

Í byrjun október kom út fréttabréf Borgarbygðar þar sem greint er frá ýmsum málefnum sem er efst á baugi hjá Borgarbyggð.
Texti fréttabréfsins fer hér á eftir.

Umhverfisátak í Borgarnesi

Borgarbyggð stóð fyrir umhverfisátaki í Borgarnesi í seinni hluta ágústmánaðar. Til nýmæla má nefna að umsjónarnefnd með fulltrúum frjálsra félagasamtaka fylgdist með átakinu og kom með ábendingar. Fóru þeir um bæinn í byrjun átaksins og gáfu álit á árangrinum að því loknu.
Ástæða er til að þakka góð viðbrögð fyrirtækja og stofnana við umhverfisátakinu. Mörg stærri fyrirtækin í bænum sem hafa mikil áhrif á umhverfið hafa gefið sér tíma til aðgerða og stuðla þannig að fallegri ásýnd bæjarins. Í mati umsjónarnefndar kom fram að sérstaklega væri ástæða til að þakka Loftorku, Borgarverki, Gámaþjónustu Vesturlands, Vöruflutningum Vesturlands og Sæmundi Sigmundssyni sérleyfishafa. Ýmsa fleiri mætti nefna og ekki síður ástæða til þess að þakka þeim sem fyrir voru með hlutina í góðu ásigkomulagi.
Borgarbyggð bauð upp á járna- og timburgáma og voru lánaðir 27 gámar í átakinu. Bæjarráð hefur tekið jákvætt í að endurtaka slíkt verkefni næsta vor.

Reglubundin tæming á rotþróm

Sex sveitarfélög norðan Skarðsheiðar; Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur, Skorradalshreppur, Kolbeinsstaðahreppur og Eyja- og Miklaholtshreppur, hafa undanfarna mánuði unnið að sameiginlegu útboði á reglubundinni tæmingu rotþróa í dreifbýli. Nú liggur fyrir verksamningur við Holræsahreinsunina ehf. Ákveðið var að bjóða upp á frjálsa þátttöku og samþykktu eigendur húsa með um 600 rotþrær að vera með í verkefninu. Eigendur sumarhúsa eru með um 370 rotþrær og lögbýli og aðrir með um 220 rotþrær.
Verktakinn hefst handa þegar í þessum mánuði og ætlar að tæma allar rotþrærnar á næstu 3 – 4 mánuðum. Byrjað verður vestur frá og endað syðst á svæðinu. Rétt er að minna eigendur húsa sem ekki eru með á mikilvægi reglubundinnar tæmingar rotþróa. Virkni rotþróar og ending siturkerfis er þannig best tryggð.
Kostnaður við tæmingu verður innheimtur með árlegu rotþróargjaldi sem gert er ráð fyrir að innheimta með fasteignagjöldum. Þannig verður kostnaði dreift niður á þrjú ár fyrir eigendur. Mögulegt er að bætast í hópinn fyrir þá sem ekki skráðu þátttöku s.l. vetur ef það er gert áður en tæming hefst. Að öðrum kosti verður ekki hægt að koma inn í verkefnið fyrr en við næstu reglubundnu tæmingu að þremur árum liðnum.

Sameiningarmál

S.l. vetur samþykkti bæjarstjórn að kanna áhuga þriggja nágrannasveitarfélaga til þess að framkvæma sameiginlega skoðanakönnun meðal íbúa um hvort sveitarfélögin ættu að hefja viðræður um sameiningu. Fundað var tvisvar um málið s.l. vor en þá lá fyrir sú afstaða meirihluta hreppsnefndar Borgarfjarðarsveitar að formlegar viðræður um sameiningarmál væru ekki tímabærar. Lýst var yfir vilja til samstarfs og reglubundinna funda milli fulltrúa sveitarfélaganna. Sveitarfélögin samþykktu að tilnefna fulltrúa í nefnd til að gera drög að frekara samráði og samstarfi. Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar í september var samþykkt að óska eftir viðræðum við hreppsnefnd Hvítársíðuhrepps um sameiningarmál en áhugi fyrir slíku reyndist ekki fyrir hendi hjá hreppsnefnd.
Það bendir því allt til að nokkur bið verði á frekara sameiningarferli sveitarfélaga norðan Skarðsheiðar. Þróunin er þó í átt til þess að sveitarfélög verði færri og stærri stjórnsýslueiningar samhliða fjölþættari og stærri verkefnum. Sveitarfélögin á svæðinu hafa nú þegar með sér margvíslegt samstarf, svo sem varðandi félagsþjónustu, safnamál og rekstur tónlistarskóla. Jafnframt myndar svæðið eitt atvinnu- og þjónustusvæði.

Grunnskólinn í Borgarnesi

Samhliða einsetningu Grunnskólans í Borgarnesi í haust hafa orðið ýmsar breytingar á skólastarfi og þjónustu við nemendur. Ein af þeim veigameiri er að frá 1. október s.l. er nemendum boðið að fá heita máltíð í hádeginu. Samið var við Hótel Borgarnes um að annast þessa þjónustu. Hægt er að kaupa fæði einstaka daga vikunnar en panta þarf einn mánuð í einu. Foreldrar greiða kr. 260 fyrir hverja máltíð en kostnaður er um kr. 350 og greiðir sveitarfélagið mismuninn. Um vissa tilraun er að ræða en greinilegt að undirtektir eru góðar og betri en reiknað var með.
Íþrótta- og tómstundaskóli fyrir 6-9 ára börn fór af stað með nokkur námskeið 10. september. Skipulögð eru sex vikna námskeið sem taka við eftir að skóla lýkur. Þátttaka er góð og þannig eru nú um 50 börn í skipulögðu skátastarfi og um 35 börn í fimleikum. Það íþrótta- og tómstundastarf sem fyrir var er fléttað inn í dagskrána eins og kostur er.

Sögur og samfélög

Borgarbyggð er í forsvari fyrir verkefnið Sögur og Samfélög (Sagas and Societies). Verkefnið fjallar um sagnaritun og sagnagerð fyrri tíma, hvernig hún mótaðist af umhverfi sínu og hvernig hún mótaði aftur umhverfi sitt, jafnvel öldum saman. Markmiðið er að draga saman fræðimenn margra landa til að fá fram dýpri skilning á samspili sagnanna og þeirra samfélaga sem skópu þær og varðveittu allt fram til nútímans. Með í verkefninu eru samstarfaðildar frá Þýskalandi og Eistlandi en aðrir samstarfaðilar eru Safnahús Borgarfjarðar, Snorrastofa í Reykholti og Reykjavíkur Akademían. Verkefnið hefst 1. nóvember n.k. og stendur í eitt ár. Efni og framgangur skiptist í eftirfarandi fjóra hluta:
· Fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni þar sem viðfangsefnið er sögur fyrri alda sem þjóðfélagslegt fyrirbæri. Undirbúningur og rannsóknir fara fram í löndunum þremur.
· Ráðstefna í Borgarnesi dagana 8. – 12. ágúst 2002 þar sem gert er ráð fyrir a.m.k. 100 fræði- og vísindamönnum víða að. Í tengslum við ráðstefnuna verða settar upp sýningar og menningarviðburðir tengdir Egilssögu.
· Útgáfa vefsíðu verkefnisins.
· Útgáfa ráðstefnurits.
Það sem gerir Borgarbyggð kleift að ráðast í þetta verkefni er að Evrópusambandið hefur samþykkt að veita því framlag allt að 8 milljónir króna gegnum styrkjakerfi Culture 2000. Verkefnisstjóri verður dr. Ólína Þorvarðardóttir og framkvæmdastjóri Þorvarður Árnason náttúrufræðingur. Auk þeirra koma margir aðilar að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins.

Umsóknareyðublöð á Netinu

Borgarbyggð hefur gert samstarfssamning við fyrirtækið Form.is. sem gerir íbúum kleift að sækja um þjónustu til Borgarbyggðar á Netinu. Nú er hægt að nálgast nokkur umsóknareyðublöð bæði á vefsvæði Borgarbyggðar og Form.is. Þar geta notendur fyllt út eyðublöð á sínu örugga heimasvæði (sambærilegt við heimasvæði í netbönkum) og sent með rafrænum hætti. Niðurstöður og tilkynningar berast á sama hátt til baka. Fyrst um sinn verður hægt að senda eftirtaldar umsóknir til Borgarbyggðar:
– Umsókn um leikskólapláss
– Umsókn um byggingarleyfi
– Umsókn um byggingarlóð
– Umsókn um húsaleigubætur
– Umsókn um viðbótarlán
Innleiðing á rafrænni meðhöndlun er unnin í samstarfi við fyrirtækið Íslensk Upplýsingatækni. Með rafrænni afgreiðslu eykst þjónusta við íbúa Borgarbyggðar og aðra sem vilja senda inn umsóknir til sveitarfélagsins óháð afgreiðslutíma bæjarskrifstofunnar.

Fjárhagsáætlun 2001

Á fundi bæjarstjórnar í september voru samþykktar breytingar á fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2001. Á þessu ári hafa sveitarfélög gengið frá nýjum kjarasamningum við flest öll stéttarfélög og gilda þeir til 2004 og 2005. Nýir kjarasamningar leiða til umtalsverðrar hækkunar á launakostnaði sveitarfélaga sem tekið er tillit til í endurskoðaðri áætlun. Aðrar breytingar á fjárhagsáætluninni eru óverulegar en þó hækka tekjuforsendur nokkuð m.v. fyrri áætlun.
Á árinu 2001 hafa verið miklar framkvæmdir hjá Borgarbyggð, einkum vegna stækkunar Grunnskólans í Borgarnesi og gatna- og holræsagerðar. Þær framkvæmdir eru í öllum aðalatriðum í samræmi við áætlanir.


Share: