Ályktun bæjarstjórnar Borgarbyggðar

janúar 18, 2001

Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar sem haldinn var fimmtudaginn 18. janúar 2001 var eftirfarandi ályktun lögð fram og samþykkt.

“Bæjarstjórn Borgarbyggðar lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun stjórnar Goða hf. að staðsetja höfuðstöðvar fyrirtækisins, þar með talið alla kjötvinnslu, á höfuðborgarsvæðinu.
Kjötvinnsla hefur verið mikilvægur hluti atvinnustarfseminnar í Borgarnesi um langan tíma. Með sameiningu þeirrar starfsemi við Goða s.l. sumar voru uppi fögur fyrirheit um áframhaldandi öfluga starfsemi í Borgarnesi og jafnvel að hún yrði aukin til muna. Á fundi fulltrúa Borgarbyggðar með stjórn og framkvæmdastjóra s.l. haust kom fram að starfsemin yrði a.m.k. ekki dregin saman og jafnvel aukin.
Stjórnir fyrirtækja hafa vissulega það hlutverk að sjá til þess að hagkvæmni sé gætt í starfsemi þeirra og taka sínar ákvarðanir út frá því. Það er hins vegar dapurleg staðreynd að fyrirtæki sem byggja á úrvinnslu landbúnaðarafurða og voru til skamms tíma að stórum hluta í eigu Kaupfélaganna víðsvegar um land hafa smám saman horfið af sjónarsviðinu eða verið sameinuð og flutt á höfuðborgarsvæðið. Svo virðist sem Goði verði gott dæmi um slíka þróun, þvert á öll markmið um eflingu byggðar og atvinnulífs utan höfuðborgarsvæðisins. Því verður þó vart trúað að ekki séu forsendur fyrir rekstri slíkrar starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins.
Þá leggur bæjarstjórn á það ríka áherslu við stjórn Goða hf. að rekstur sláturhúss í Borgarnesi verði tryggður. Það er undirstaða þess að áfram verði rekinn öflugur landbúnaður í Borgarfirði auk þess sem það skapar möguleika á því að áfram verði ákveðinn hluti frumvinnslu í Borgarnesi.”


Share: