Tillaga að fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árin 2016-2019 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær 10. desember. Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur í samstæðureikningi A og B hluta árið 2016 verði 109,5 m.kr. og að rekstrarjöfnuður samkvæmt sveitarstjórnarlögum fyrir tímabilið 2015-2017 verði jákvæður um 130 m.kr. að frádregnum söluhagnaði á árinu 2015.
Áætlun gerir ráð fyrir að framlegð batni um 200 m.kr. frá árinu 2014 og verði um 400 m.kr. árið 2016 eða 11,7% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri árið 2016 í samstæðu A og B hluta er áætlað 356 m.kr. en 312 m.kr. ef einungis er litið til A hluta. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri í hlutfalli við tekjur verði 10% í A hluta og 10,4% í A og B hluta. Til samanburðar var veltufé frá rekstri árið 2014 4,4% og gerir útkomuspá ráð fyrir að það verði um 4,6% árið 2015. Það er því gert ráð fyrir því að veltufé frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum hækki verulega milli ára og að svigrúm skapist fyrir auknar fjárfestingar.
Gert er ráð fyrir fjárfestingu 200 m.kr. í samstæðu A og B hluta , að gatnagerðargjöld 20 m.kr. komi á móti framkvæmdakostnaði og nettó fjárfesting á árinu 2016 verði því 180 m.kr. Afborganir langtímalána eru áætlaðar 256 m.kr. Gert er ráð fyrir endurfjármögnun lána allt að 100 m.kr. og nettó niðurgreiðsla lána því 150 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að handbært fé í árslok verði um 137 m.kr. í samstæðu A og B hluta og handbært fé í A hluta verði um 78 m.kr. í árslok 2016.
Í Brúnni til framtíðar samstarfsverkefni við KMPG voru sett fram markmið er hafa lagt grunn að aðgerðum sem ætlað er að bæta fjárhagsstöðu Borgarbyggðar á komandi árum. Lagt var upp með að bæta þyrfti framlegð um 200 m.kr. frá árinu 2014. Í þeirri áætlun sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir að því markmiði verði náð þegar á árinu 2016. Það er hinsvegar ljóst að til þess að það haldi þarf að fylgja fjárhagsáætlun vel eftir og gæta fyllsta aðhalds.
Sala eigna á árinu 2015 hefur gert það að verkum að yfirdráttur sveitarfélagsins hefur lækkað mjög mikið og ætti að falla niður um áramót auk þess sem fallið hefur verið frá því að taka ný lán á árinu 2015. Búið er að bæta lausafjárstöðu verulega og greiða niður skuldir sem nemur um 330 m.kr. Þetta gerir að verkum að skuldahlutfall ætti að lækka umtalsvert á árinu 2015 eða um rúm 12% milli 2014 og 2015 og fara niður í 136,8% árið 2016. Það þýðir samkvæmt áætlun að skuldaviðmið gæti orðið innan við 110% árið 2016.
Stærstu verkefni á framkvæmdaáætlun eru vegna endurbóta og byggingar mötuneytis við Grunnskólann í Borgarnesi og framkvæmda vegna flutnings leikskólans Hnoðrabóls að Kleppjárnsreykjum. Þá er gert ráð fyrir kostnaði vegna framkvæmda við Kveldúlfsgötu, eflingu á starfsemi áhaldahúss, endurnýjun lagna vegna vatnsveitna í dreifbýli og framkvæmda vegna grenndarstöðva í dreifbýli. Ekki er gert ráð fyrir öðru fjármagni í gangstéttir og götur fyrr en á árinu 2017. Mikilvægt er að viðhalda þeirri stefnu að fjárfestingargeta sveitarfélagsins verði að meðaltali um 200 m.kr. í samræmi við Brúna til framtíðar á ári þannig að hægt sé að sinna nauðsynlegum fjárfestingum ár hvert.
Stigin hafa verið mikilvæg skref til að styrkja rekstur sveitarfélagsins. Sú vinnahefur verið í gangi allt frá haustinu 2014. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut. Starfsfólki sveitarfélagsins er þakkað fyrir vandaða vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Greinargerð með fjárhagsáætlun er að finna hér og fjárhagsáætlun má nálgast hér. Fundargerð sveitarstjórnar er aðgengileg á vefnum. Skýrslu sveitarstjóra er að finna hér.
Kolfinna Jóhannesdóttir
sveitarstjóri