Vinakeðja á Varmalandi

desember 1, 2008
Í byrjun aðventu tóku nemendur Varmalandsskóla og leikskólabörn á Varmalandi í Borgarfirði sig til og mynduðu svokallaða vinakeðju, sem náði allt frá Varmalandsskóla og upp á, Laugarhnjúk, hamarinn sem er fyrir ofan skólann. Kyndlar voru svo látnir berast eftir keðjunni upp á topp á hamrinum og loguðu ljósin fram eftir degi.
Nemendur í grunnskólanum og leikskólanum á Varmalandi voru í byrjun vetrar að vinna með ,,virðingu“ og í framhaldi af því var farið að vinna með ,,vináttu“. Tími aðventunnar er einmitt sá tími sem er góður í að hugleiða kærleik og vináttu og því kærkomið tækifæri að nota þennan fyrsta virka dag aðventunnar til þess að búa til svokallaða vinakeðju úr þessum sameinaða nemendahópi.
Annarhver nemandi keðjunnar var úr eldri deild og annarhver úr yngri deild eða leikskólanum. Þegar fyrstu hlekkir keðjunnar voru komnir upp að hnjúknum var fyrsti kyndillinn sendur af stað. Kyndlarnir voru þrettán, einn fyrir hvern bekk, einn fyrir kennara skólans, einn fyrir leikskólann og einn fyrir annað starfsfólk skólans. Þessi fallega athöfn í upphafi aðventu tókst i alla staði vel og var öllum þáttakendum til mikillar skemmtunar. Eftir gönguna upp á Laugahnjúk renndu sér flestir á rassinum niður aftur.
 

Share: