Foreldradagur Heimilis og skóla var haldinn þriðja sinn og nú í Menntaskóla Borgarfjarðar, föstudaginn 22. nóvember.
Yfirskrift dagsins var:
„Komdu, ég þarf að hlusta á þig.“ (H.Þ.)
HVERNIG GETA FORELDRAR UNNIÐ AÐ FORVÖRNUM OG STUÐLAÐ AÐ VELFERÐ BARNA?
Markmiðið foreldradagsins er að bjóða upp á vandaða og gagnlega fræðslu fyrir foreldra. Boðið var upp á fræðsluerindi og málstofur um forvarnir í víðu samhengi. Hvernig geta foreldrar stuðlað að forvörnum? Hvernig geta foreldrar tekið á einelti, netfíkn, vímuefnavanda og öðrum erfiðleikum?
Dagskráin hófst á því að Ketill B. Magnússon, formaður Heimilis og skóla, setti samkomuna. Dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur, kynnti nýjar niðurstöður frá Rannsóknum og greiningu og Jóna Karen Sverrisdóttir, ráðgjafi hjá Capacent, kynnti helstu niðurstöður nýrrar SAFT könnunar 2013. Þá tók við vinna í málstofum og gátu þátttakendur valið úr þremur málstofum; um forvarnir gegn áfengis- og vímuefnaneyslu, netfíkn og hegðun á netinu, og einelti. Stjórnendur málstofanna voru Guðrún Björg Ágústsdóttir ráðgjafi hjá Vímulausri æsku – Foreldrahúsi, Eyjólfur Örn Jónsson, sálfræðingur og Páll Ólafsson félagsráðgjafi. Að lokum var samantekt úr málstofum kynnt fyrir öllum þátttakendum foreldradagsins. Dagskráin var fræðandi og skemmtileg.
Inga Vildís Bjarnadóttir