Heiðursverðlaun Myndstefs – þrjú myndverk tengd Borgarfirði

nóvember 15, 2006
Þrjú myndverk er tengjast Borgarfirði eru nú meðal verka þeirra sex myndhöfunda er keppa um heiðursverðlaun Myndstefs, myndhöfundasjóðs Íslands, sem Forseti Íslands úthlutar við hátíðlega athöfn þann 21. nóvember. Sigríður Sigþórsdóttir, VA arkitektum, var tilnefnd fyrir hönnun Landnámsseturins í Borgarnesi og Valgerður Bergsdóttir var tilnefnd fyrir steinda glugga sína í Reykholtskirkju. Ennfremur er merk ljósmyndasýning Andrésar Kolbeinssonar tilnefnd, en Andrés er frá Stóra-Ási í Hálsasveit. Hér á eftir fara nánari upplýsingar um tilnefningarnar:
 

  • Andrés Kolbeinsson fyrir merkt framlag til íslenskrar ljósmyndalistar sem kynnt var almenningi í fyrsta sinn á yfirlitssýningu á vegum Ljósmyndasafns Reykjavíkur sumarið 2006.

  • Sigríður Sigþórsdóttir, VA arkitektum, fyrir hönnun lækningalindar Bláa lónsins og Landnámsseturs í Borgarnesi, þar sem næm tilfinning og virðing fyrir náttúrulegu umhverfi og sögulegu samhengi er einkennandi.

  • Valgerður Bergsdóttir fyrir steinda glugga í Reykholtskirkju, sýningarnar Teikn og hnit og AND-LIT í Gerðarsafni og fyrir fjölþætt störf á vettvangi íslenskrar myndlistar sem kennari, stjórnandi og myndlistarmaður.

Þetta er í annað sinn sem heiðursverðlaunum Myndstefs er úthlutað en þau eru veitt fyrir afburða framlag til myndlistar, framúrskarandi myndverk eða sýningu. Verðlaunin nema samtals einni milljón króna. Landsbanki Íslands er fjárhagslegur bakhjarl heiðursverðlaunanna og leggur til helming verðlaunafjárins en hinn helmingurinn kemur úr sjóðum Myndstefs. Nánari upplýsingar á heimasíðu Myndstefs: www.myndstef.is.

Share: