Yfirlýsing frá sveitarstjórn Borgarbyggðar

nóvember 8, 2010
Sveitarstjórn Borgarbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af framkomnum hugmyndum um innlimun Háskólans á Bifröst í Háskólann í Reykjavík. Tillögurnar fela í sér að háskólanám á Bifröst muni leggjast af og það nám sem eftir stendur mun veikjast verulega. Fjöldi starfa mun flytjast frá Borgarfirði til Reykjavíkur og héraðið mun missa einn af sínum mikilvægustu vinnustöðum. Menntastofnanir eru ein af grunnstoðum samfélagsins í Borgarbyggð og sveitarfélagið hefur til fjölda ára stutt við bakið á Háskólunum á Bifröst og Hvanneyri með mikilli uppbyggingu á aðstöðu til að þar sé hægt að bjóða upp á fjölskylduvænt umhverfi.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar fagnar framkomnum hugmyndum um aukið samstarf háskólanna í Borgarfjarðarhéraði og mun leggja sitt af mörkum til þess að háskólarnir vaxi og dafni.

Mikill fjöldi námsmanna hefur átt börn í leik- og grunnskólum Borgarbyggðar og ef háskólanám verður flutt úr sveitarfélaginu þá mun það setja starf þessara stofnana í uppnám. Þar fyrir utan hafa nemendur og kennarar við háskólann á Bifröst verið virkir þátttakendur í mannlífi og menningu héraðsins.

Sveitarstjórn leggur áherslu á að skoðaðir verði vandlega allir möguleikar á að leita annarra leiða til að tryggja öflugt háskólasamfélag í Borgarfirði og bendir sérstaklega á þá möguleika sem felast í aukinni samvinnu háskólanna á Bifröst og Hvanneyri.
 
 

Share: