Dagur gegn einelti

nóvember 7, 2013
Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu og verður haldinn hátíðlegur í þriðja sinn núna á föstudaginn.
Í tengslum við baráttudaginn árið 2011 undirrituðu fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, félagasamtaka og opinberra stofnana Þjóðarsáttmála gegn einelti. Hægt er að undirrita hann rafrænt á heimasíðu verkefnisins www.gegneinelti.is. Fólk er hvatt til að kynna sér sáttmálann og undirrita hann.
Þá hvetja stjórnvöld skóla og aðrar stofnanir til að nýta 8. nóvember til að hugleiða hvernig hægt sé að stuðla að jákvæðara samfélagi fyrir alla og víða um land er skipulögð dagskrá í tengslum við verkefnið.
 
Leik- og grunnskólar í Borgarbyggð eru að sjálfsögðu þátttakendur . T.d. verður vinadagur á Klettaborg og teknar verða knúsmyndir á Uglukletti. Á Hvanneyri munu Andabær og grunnskólinn vinna saman og kalla daginn einnig vinadag, börnin hittast eftir árgöngum og leika sér úti og inn. Í Grunnakólanum í Borgarnesi nær dagskráin yfir alla vikuna, vinabekkir hittast og unnið er að því að skapa traust og vináttutengsl milli nemenda. Sameiginleg dagskrá verður í íþróttahúsinu á föstudaginn, gerðar verða eineltis- og tengslakannanir og fleira. Í Hraunborg er unnið að ýmsum samvinnuverkefnum og farið verður í umræður um einelti og þjölbreytt þjóðerni.
Í tilefni dagsins munu bjöllur, klukkur og skipsflautur óma í sjö mínútur um allt land frá klukkan 13:00 – 13:07. Skólar, aðrir vinnustaðir og samfélagið í heild eru hvött til að taka höndum saman og helga daginn baráttunni gegn einelti með einhverjum hætti.
 
 

Share: