Böðvar Guðmundsson kom í sitt heimahérað í gærkvöldi og las upp úr nýrri bók sinni Enn er morgunn, í Safnahúsi Borgarfjarðar. Um sögulega skáldsögu er að ræða og bíða margir spenntir eftir að lesa þetta nýjasta verk skáldsins. Bókakynningin var vel sótt og gerður góður rómur að því sem kynnt var, en auk bókar Böðvars voru það Snorri eftir Óskar Guðmundsson, Sporaslóð eftir Braga Þórðarson og bókin …og svo kom Ferguson eftir Bjarna Guðmundsson.
Sagt var frá nokkrum öðrum skáldverkum, fræðiverkum og þýðingum sem út koma um þessar mundir og tengjast Borgarfirðinum. Í dagskrárlok flutti Bjarni Guðmundsson ljóð eftir Guðmund Böðvarsson við góðar undirtektir.
Gestir nýttu sér það að bókakynningin var í sýningarrýminu þar sem Börn í 100 ár er staðsett og virti sýninguna fyrir sér að lokinni dagskrá, ásamt öðru áhugaverðu sem er í húsinu. Meðfylgjandi mynd er tekin í Pálssafni en þar voru gersemar skoðaðar fyrir heimferð. Hér skoða þau Sigrún Elíasdóttir, Bragi Þórðarson, Böðvar Guðmundsson og Sævar Ingi Jónsson merka bók sem eitt sinn var í eigu Brynjólfs biskups.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir