Mr. Skallagrímsson – uppselt 2006 – sala hafin 2007

október 6, 2006
Mikil fjöldi fólks hefur heimsótt Landnámssetrið í Borgarnesi í sumar og haust. Ekki síst nýtur leiksýningin Mr. Skallagrímsson eftir Benedikt Erlingsson mikilla vinsælda og uppselt er á allar sýningar í október. Þá lýkur sýningum á þessu ári, þar sem Benedikt hverfur til annarra verkefna. Hann hefur þó ekki yfirgefið Landnámssetur því hann kemur aftur með vorinu og sýningar á Mr. Skallagrímsson hefjast að nýju 12. apríl 2007 og er miðasala þegar hafin.
 
NýjungRatleikur í fótspor Þorgerðar Brákar og Skalla-Gríms
Leiðsögn Kjartans Ragnarssonar með hópa um Egilsslóð hefur líka verði vinsæl og nú hefur Kjartan búið til ratleik í fótspor Þorgerðar Brákar og Skalla-Gríms. Ratleikurinn er klukkutíma til eins og hálfs tíma útivera við skemmtilega iðju. Einhver dæmalausasta söguslóð Íslendingasagnanna er leiðin sem Þorgerður Brák flúði niður í gegnum núverandi Borgarnesbæ undan Skalla-Grími eftir knattleikinn fræga. Ambáttin Brák bjargaði þar með lífi Egils Skalla-Grímssonar en lét sitt eigið líf.
Fastasýningar
Fastasýningarnar tvær í Landnámssetri, um landnám Íslands og Egil Skallagrímsson, hafa einnig verið mjög vel sóttar, en þær eru opnar virka daga frá kl. 11-17 og 11 – 20 um helgar. Allar nánari upplýsingar um þjónustu Landnámsseturs fást í síma 437 1600.
 

Share: