Ungmennahúsið Mímir í nýtt húsnæði

október 1, 2009
Á þriðjudagskvöldið var ný aðstaða ungmennahúss opnuð í kjallara menntaskólans að viðstöddu fjölmenni.
Húsið verður opið tvö til þrjú kvöld í viku í vetur fyrir ungmenni á aldrinum 16-25 ára í Borgarbyggð eins og verið hefur í gamla húsnæðinu Kveldúlfsgötu en nýja aðstaðan er öll miklu rýmri og betri auk þess sem hægt er að nota hana á daginn á skólatíma fyrir starfsemi nemendafélags menntaskólans. Einnig er þarna nú að finna frábæra tónlistaraðstöðu sem ungmennin hafa sett upp og kemur til með að nýtast vel í starfinu.
Að starfseminni standa sameiginlega húsráð Mímis ungmennahúss og nemendafélag menntaskólans og hefur samvinna þessa félaga við flutninginn og samhæfingu á starfinu verið til fyrirmyndar. Einnig kom ungmennaráð Borgarbyggðar að hugmyndavinnu á fyrri stigum.
Við opnunina á nýja húsnæðinu lýstu Indriði Jósafatsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Borgarbyggðar og Hugrún Hildur Bjarnadóttir formaður Mímis starfsemi hússins og væntingum varðandi notkun þess sem verður í höndum ungmennanna sjálfra. Ávörp fluttu Páll S Brynjarsson sveitarstjóri, Ársæll Guðmundsson skólameistari MB og Ásdís Helga Bjarnadóttir formaður tómstunda- og menningarnefndar.
Ljósmyndasýning var opnuð við þetta tækifæri á listavegg hússins og var að þessu sinni ungur ljósmyndari úr Borgarnesi Rakel Erna Skarphéðinsdóttir sem var þar með sína fyrstu ljósmyndasýningu.
Rakel Erna sýnir þarna tíu myndir sem hún hefur tekið á síðustu árum en listaveggur þessi er hugsaður fyrir ungt listafólk sem vill sýna þar verk sín eins og málverk, ljósmyndir eða annað handverk sem það vinnur að í listsköpun sinni.
Guðmundur Skúli Halldórsson fékk viðurkenningu frá húsráði ungmennahússins fyrir óeigingjarnt starf í þágu hússins s.l. níu ára.
Þess má geta að Fjöliðjan hefur þegar leigt húsnæðið sem ungmennahúsið var í við Kveldúlfsgötu til að auka fjölbreytni í starfi sínu þar.
Bifhjólafélagið Raftar sem héldu fundi sína í gamla ungmennahúsinu flytja nú einnig í nýja húsnæðið með starfsemi sína og leggja forvarnarstarfinu lið með fræðslu fyrir ungmennin á hættum í umferðinni, tilgangsleysi hraðaksturs og fleiri áhættuþátta í umferðinni.
 
Rekstur ungmennahúss verður áfram á varlegum nótum og sjá t.d. ungmennin sjálf um gæsluna að mestum hluta og þannig getum við haldið rekstri þess áfram ef allir leggja málefninu lið og taka ábyrgð.
Ungmenni í Borgarbyggð til hamingju með nýja húsnæðið og megi starfið blómstra hjá ykkur.
Grein ij.
Ljósmyndir: Magnús M. og Rakel E
 

Share: