Kennarar í Borgarnesi læra um kennsluaðferðina PALS

október 1, 2013
Þriðjudaginn 24. september var haldið námskeið fyrir kennara í Grunnskólanum í Borgarnesi um kennsluaðferðina PALS. Pör að læra saman (Peer-Assisted Learning Strategies) er þjálfunaraðferð sem þróuð hefur verið og rannsökuð í Bandaríkjunum í um 20 ár og hentar til að vinna með lestur og lesskilning í getublönduðum nemendahópum. Nemendur læra aðferðir til að vinna saman á skipulagðan hátt, óháð lestrargetu. Þeir læra að fylgjast með, leiðrétta villur og þjálfa lesskilning hver hjá öðrum undir handleiðslu kennara.
Kennari velur nemendur saman í pör út frá lestrarfærni og pörin vinna saman þrisvar í viku í 4 vikur í senn. Eftir að nemendur hafa náð valdi á aðferðinni má nýta hana til að vinna með námsefni á skipulagðan hátt og nýtist því nemendum upp allan grunnskólann.
Rannsóknir hafa sýnt að nemendur taka góðum framförum bæði í lestri og lesskilningi á meðan á verkefninu stendur og á það bæði við góða og slaka lesara. Þá hafa nemendur einnig tileinkað sér góða námstækni sem nýtist þeim í öllu námi.
Efni sem kennarar og nemendur nýta sér í vinnunni hefur verið þýtt og þróað hér á landi og sýnt hefur verið fram á góðan árangur þar sem þessi kennsluaðferð er nýtt markvisst.
Kennarar GB létu vel af námskeiðinu og verður spennandi að fylgjast með nemendum og kennurum tileinka sér þessa nýjung í kennsluháttum.
(vefur skólans, á myndunum má sjá fróðleiksfúsa kennara)
 

Share: