Samkomulag um eflingu sveitarstjórnarstigsins

september 30, 2009
Samgönguráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa undirritað í yfirlýsingu um að skipa samstarfsnefnd til að ræða og meta sameiningarkosti sveitarfélaga í hverjum landshluta. Efling og sameining sveitarfélaga hefur lengi verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum og í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að sveitarfélög verði efld með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Flutningur málefna fatlaðra og aldraðra hefur verið tímasettur árin 2011 og 2012 og hefur einnig verið rætt um flutning á heilbrigðisþjónustu í þessu sambandi.
 
Í yfirlýsingunni lýsa samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristján L. Möller, og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Halldór Halldórsson, ánægju sinni með þá umræðu og vinnu sem farin er að stað til eflingar sveitarstjórnarstigsins. Unnið verði að yfirfærslu á málefnum fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna, nefndir starfi við heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og reglum jöfnunarsjóðs, samráð ríkis og sveitarfélaga verði bætt og eflt með tilkomu sérstakrar samráðsnefndar og á vettvangi samráðsnefndar um efnahagsmál verði unnið að frekari útfærslum á samráði hins opinbera á sviði efnahagsmála. Gerð sóknaráætlana fyrir hvern landshluta mun jafnframt skapa nýja sýn á samþættingu opinberrar stefnumótunar og svæðasamvinnu.
Aðilar eru sammála um að vinna ötullega að þessum verkefnum og þeim markmiðum sem sett eru í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í stefnumörkun sambandsins um eflingu sveitarstjórnarstigsins og bætt samskipti ríkis og sveitarfélaga.
Aðilar eru sammála um að einn liður í eflingu sveitarstjórnarstigsins er frekari sameining sveitarfélaga í stærri og öflugri einingar.

  • Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur til sameiningar og stækkunar sveitarfélaga en hefur ekki stutt hugmyndir um lögþvingaða sameiningu. Sambandið er þó tilbúið til viðræðna um útfærslu á öðrum leiðum hvað þetta varðar, eins og í öðrum samskiptamálum ríkis og sveitarfélaga.
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra telur nauðsynlegt að fara nýjar leiðir við sameiningar svo ná megi heildstæðari árangri við eflingu sveitarstjórnarstigsins. Þó að leið frjálsrar sameiningar hafi leitt til verulegrar fækkunar sveitarfélaga er fjöldi fámennra sveitarfélaga enn of mikill og jafnframt ákveðin hindrun fyrir frekari eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Með hliðsjón af ofangreindu hafa samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra annars vegar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar sameinast um vinnu við mótun tillagna um leiðir til frekari sameiningar sveitarfélaga sem lið í átaki til eflingar sveitarstjórnarstigsins.
 

Share: