Sauðamessa 2008
Í og við Skallagrímsgarð Borgarnesi 4. október
Ærleg skemmtun fyrir sauðsvartan almúgann!!!
Sauðamessa er stórhátíð tileinkuð sauðkindinni og sauðnum í okkur sjálfum haldin af áhugamönnum um almennan sauðshátt. Hátíðin er haldin í og við Skallagrímsgarð í Borgarnesi og hefst klukkan 13.30 að staðartíma með fjárrekstri. Þá verður um tvöhundruð fjár rekið í gegnum af sjálfskipuðum rekstrarfræðingum eftir aðalgötunni og inn í rétt sem verður rétt við Skallagrímsgarðinn.
Á útisviði í Skallagrímsgarði verður stanslaus dagskrá frá 14.00 – 17.00 en meðal þeirra sem þar koma fram eru Björgvin Franz, Hvanndalsbræður, Jóhann Sigurðarson leikari og Þórður frá Klapparholti. Þá verður efnt til landskeppni í Lærasnæðingi, sparðatýningi ofl.
Ýmis önnur afþreying verður í boði utan sviðs, s.s. Íslandsmótið í Vettlingatökum, kjötsúpukeppni veitingamanna, lopateygingar, hrákakeppni ofl. Gestir geta brugðið sér á bak gangnahestum, tekið rúnt í heyvagni, fengið glímukennslu eða fylgst með smalahundum sýna listir sínar. Þá verður fólki boðið upp á ókeypist fitumælingu og kjötflokkun á sjálfu sér.
Sauðamarkaður verður í sölutjöldum á staðnum en þar verður í boði hverskonar handverk úr afurðum sauðkindarinnar ásamt ýmsu öðrum. Einnig kjötmarkaður þar sem lambaket verður í fyrirrúmi. Þess má líka geta að sama dag og á sama stað verður kynning á félags – og tómstundastarfi í sveitarfélaginu Borgarbyggð.
Þess ber ennfremur að geta að á meðan dagskrá stendur verður í boði FRÍ KJÖTSÚPA fyrir alla landsmenn.
Sauðamessu 2008 líkur síðan með ærlegu hlöðuballi í nýbbyggðri reiðskemmu við hesthúsahverfið í Borgarnesi frá kl. 22.00 – 02.00 og er það hin síunga hljómsveit Upplyfting sem leikur fyrir dansi. Þar verður lögð áhersla á stígvélapolka og skylda dansa.
Við minnum á vef Sauðamessu: www.saudamessa.is
Nánari upplýsingar gefur Gísli í síma 899 4098.
Borgfirskir sauðir.
(Fréttatilkynning)