Sælir eru sauðir og blessaðir því þeir munu landið bíta

september 16, 2010
Fréttatilkynning:
Í samræmi við ályktun frá Landssamtökum fjárfesta og vegna stigvaxandi þrýstings frá ýmsum hagsmunasamtökum, s.s. ESB, BSRB, ADSL, SMS, MSN, LSD, Breska fjármálaráðuneytinu, Samtökum Sláturleyfishafa í Suður Wales, Félagi Hollenskra innistæðueigenda og Lögreglukórnum, hefur verið ákveðið að halda Sauðamessu í Borgarnesi laugardaginn 9. oktober á þessu ári. Að messunni standa áhugamenn um almennan sauðshátt og sauðfjárbændur í Borgarfirði og á Mýrum.
Messuhald verður með hefðbundnu sniði en boðið er upp á ýmsar nýjungar, s.s. lopamaraþon, taðkögglarallý, keppni í skítkasti og fleira.
 
Að venju hefst Sauðamessa klukkan eitt þrjátíu eftir hádegi á fjárrekstri eftir Borgarbrautinni að Skallagrímsgarði þar sem rétt er að hafa rétt. Dagskráin fer síðan fram í og við garðinn. Á sviðinu verður ærleg dagskrá fram eftir degi, Sauðamarkaðurinn verður á sýnum stað í sölutjöldum, boðið verður upp á kjötsúpu fyrir alla íbúa veraldar. Þá gefst gestum mögulega kostur á að bregða sér á bak gangnahestum og kannski að fara á rúntinn í heyvagni.
Heiðursgestur hátíðarinnar verður Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra enda er velferð þjóðarinnar komin undir velferð sauðkindarinnar.
Allir velunnar íslensku sauðkindarinnar eru boðnir velkomnir á hátíðina en ærlegur klæðnaður er áskilinn.
Nánari upplýsingar verða veittar við innganginn, varðandi sölubása þá eru upplýsingar veittar í síma 892-1780 og netfang: hlediss@gmail.com
 

Share: