Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar og Sigurður Guðmundsson sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar undirrituðu í dag samstarfssamning um tómstundastarf fyrir 6 til 16 ára börn í Borgarbyggð.
Tilgangurinn með samningnum er að auka fjölbreytni í tómstundastarfi fyrir börn á grunnskólaaldri, fjölga þátttakendum í skipulögðu félags- og tómstundastarfi og að stuðla að því að vinnudagur barnanna verði sem heildstæðastur.
Hlutverk UMSB samkvæmt samningnum verður að sjá um og skipuleggja íþrótta- og tómstundaskóla fyrir börn í 1. – 4. bekk, starfsemi félagsmiðstöðva fyrir unglinga, sumarfjör fyrir börn í 1. – 7. bekk og vinnuskóla fyrir börn í 8. – 10. bekk.
Helstu nýmæli í tómstundastarfi skv. samningi þessum er stofnun íþrótta- og tómstundaskóla, sem mun taka til starfa 1. janúar næstkomandi. Starfsemi skólans verður byggð upp í góðu samstarfi við íþróttafélögin sem halda úti æfingum fyrir börn á þessum aldri. Ætlunin er að geta boðið börnunum upp á að æfa þær greinar sem þau vilja en um leið að kynna fyrir þeim aðrar greinar sem í boði er að æfa í sveitarfélaginu. Auk íþróttaæfinga er stefnt að því að bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf, svo sem leiklist, myndlist, tónlist, skátastarf, útivist, kynningu á starfsemi björgunarsveitanna og fleira. Með stofnun skólans er leitast við að jafna tækifæri barna í sveitarfélaginu til íþrótta- og tómstundaiðkunar.
UMSB hefur ráðið Sigurð Guðmundsson sem tómstundafulltrúa og mun hann hefja störf 1. nóvember næstkomandi. Sigurður er með B.Sc. gráðu í íþrótta-, kennslu- og lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur einnig menntað sig í leiðtoga- og frumkvöðlafræðum og almennum íþróttum auk þess að vera með sveinspróf í húsasmíði. Sigurður hefur yfirgripsmikla reynslu á sviði íþrótta- og æskulýðsmála. Hann hefur meðal annars starfað sem landsfulltrúi UMFÍ þar sem helstu ábyrgðarsvið hans voru framkvæmdastjórn með Landsmóti UMFÍ 50+, verkefnin Fjölskyldan á fjallið og Hættu að hanga! Komdu að hjóla, synda eða ganga. Hann skipulagði frjálsíþróttaskóla UMFÍ sem starfræktur er fyrir 11 – 18 ára ungmenni um land allt, auk þess að sitja í Æskulýðsráði ríkisins, þar sem meðal annars er unnið að stefnumótun æskulýðsfélaga í landinu, og eiga sæti í starfshópi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um frístundaheimili. Borgarbyggð býður Sigurð velkominn til samstarfs.
Í lok nóvember verður haldinn kynningarfundur fyrir nemendur og foreldra þar sem íþrótta- og tómstundaskólinn og önnur verkefni sem samningurinn innifelur verða kynnt.
Fræðslustjóri