Ljósubörnum safnað í bók

september 4, 2008
Einn fágætasti gripurinn á sýningunni Börn í 100 ár, sem staðið hefur nú yfir í Safnahúsi um allnokkurt skeið, er Willisjeppi Jóhönnu Jóhannsdóttur ljósmóður. Hún starfaði í Borgarnesi og nágrenni í áratugi á síðustu öld. Nokkuð var um það í sumar að fólk sem Jóhanna tók á móti hafi komið á sýninguna og er nú verið að safna nöfnum þeirra í bók til minja um farsælan starfsferil þessarar merku konu. Á þeim undirskriftum sem þegar eru komnar má sjá að um er að ræða langan starfstíma, elsta ,,barnið“ fæddist 1943 og það yngsta 1974. Bókin verður höfð á bókasafninu í Safnahúsi í vetur og undirskriftum safnað þar, þangað til sýningin verður opnuð aftur í vor.
2Þess má geta að Jeppinn, sem er árgangur 1951, er lánaður á sýninguna af núverandi eiganda hans, Kristjáni Björnssyni í
Borgarnesi. Það er Kristjáni og Erni Símonarsyni fyrir að þakka að bíllinn er nánast eins og þegar Jóhanna átti hann og eiga þessir heiðursmenn þakkir skildar fyrir góða varðveislu.
Í sumar var sýningin opin alla daga frá 13-18 og sóttu um 2.500 gestir hana á þeim tíma. Í vetur verður ekki opið að staðaldri, en tekið á móti hópum eftir samkomulagi þangað til opnað verður aftur næsta vor. Gert er ráð fyrir að sýningin standi í nokkur ár hið minnsta. Hún hefur hlotið mikið lof fyrir frumlega nálgun á viðfangsefninu sem er saga barna á Íslandi á 20. öld, eftir að fræðslulög tóku gildi í ársbyrjun 1908. Sýningarhönnuður er Snorri Freyr Hilmarsson, nú fastráðinn leikmyndahönnuður hjá Borgarleikhúsinu.
Myndir: Guðrún Jónsdóttir

Share: