Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi

júlí 27, 2010
Um verslunarmannahelgina fer 13. Unglingalandsmót UMFÍ fram í Borgarnesi og nágrenni.
Undirbúningur hefur staðið yfir frá því í vetur er staðsetning mótsins var ákveðin. Mikill fjöldi hefur komið að undirbúningnum en það er Ungmennasamband Borgarfjarðar sem er mótshaldari í samvinnu við UMFÍ og Borgarbyggð.
Formaður landsmótsnefndar er Björn Bjarki Þorsteinsson en Ómar Bragi Stefánsson er framkvæmdastjóri mótsins og Margrét Baldursdóttir verkefnastjóri.
Keppendur á mótinu eru á aldrinum 11 – 18 ára og er ljóst að mikill fjöldi verður á mótinu þar sem skráningar keppenda eru um 1700 talsins. Mótið hefst fimmtudaginn 29. júlí og því lýkur að kvöldi sunnudagsins 01. ágúst.
Mótið fer fram í íþróttamannvirkjum sem eru í Borgarbyggð en tjaldsvæði eru rétt ofan við Borgarnes. Boðið verður upp á góðar samgöngur á milli keppnisstaða og tjaldsvæðisins.
Samhliða íþróttakeppninni verður fjölbreytt skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna m.a. í Skallagrímsgarði, félagsmiðstöðinni Óðal og í Safnahúsi Borgarfjarðar.Einnig verða kvöldvökur í samkomutjaldi við tjaldsvæðið.
Mjög góðar upplýsingar um mótið er að finna á heimasíðu landsmótsins.
 
Borgarbyggð býður keppendur og gesti velkomna í sveitarfélagið um verslunarmannahelgina og væntir þess að allir eigi hér góða daga.
 
 

Share: