Miðvikudaginn 8. júlí næstkomandi heldur Háskólakór Árósa í Danmörku tónleika í Reykholtskirkju og hefjast þeir kl. 20.30. Kórinn skipa 25 – 30 háskólastúdentar á aldrinum 20-40 ára. Hann er talinn meðal allra bestu áhugamannakóra Danmerkur og hefur sungið inn á 4 hljómdiska, sungið kirkjuleg verk í danska sjónvarpinu og tekið þátt í ýmsum alþjóðlegum tónlistarhátíðum svo sem NUMUS tónlistarhátíðinni sem tileinkuð er samtímatónlist og einnig í Concorso Polifonico Arezzo á Ítalíu.
Efnisskrá kórsins spannar víðfemt svið tónverka frá ýmsum tímum sem flutt eru á undirleiks. Á tónleikunum í Reykholtskirkju verða flutt verk eftir Stefán Arason, Jón Leifs, F. Mattiassen, Carl Nielsen og Per Skriver og ýmis dönsk sumarlög.
Markmið kórfélaga er að breiða út þekkingu á sígildum kórverkum og að þróa hina hefðbundnu kórahefð með því að flytja nýleg verk sem samin eru sérstaklega fyrir kóra.
Lögð er áhersla á að kórfélagar læri alla texta utan að en það gefur möguleika á frjálslegri uppstillingu í rýminu og kórfélagar ná betra sambandi bæði við stjórnanda og áheyrendur.
Margir kórfélaga vinna eingöngu við tónlist annað hvort sem tónlistarmenn eða sem nemendur við Tónlistardeild Árósaháskóla og Konunglega tónlistarháskólann í Árósum. Ýmis tónskáld hafa samið tónverk sérstaklega fyrir kórinn þar á meðal er Stefán Arason sem skipar sérstakan sess í hjörtum kórfélaga þar sem hann söng með kórnum um árabil.
Stjórnandi kórsins er Carsten Seyer Hansen en hann stofnaði kórinn 1995.
Carsten Seyer Hansen er cand. mag í tónfræði og heimspeki og organisti við Dómkirkjuna í Árósum. Hann stjórnar einnig Concert Clemens sönghópnum og Skt. Clemens drengjakórnum og hefur unnið ýmis verkefni m.a. með Radiokoret, Århus Bachselskab og Århus Sinfonietta. Carsten Seyer Hansen er listrænn stjórnandi Norrænu kóra- og menningarhátíðarinnar í Árósum 2010.