Knattspyrnuhátíð fyrir alla fjölskylduna
Laugardaginn 12. júní næstkomandi stendur knattspyrnudeild Skallagríms í fyrsta sinn fyrir knattspyrnudegi. Tilgangurinn er að kynna öflugt starf deildarinnar fyrir almenningi sem og að gefa iðkendum kost á að gera sér glaðan dag. Allir eru velkomnir hvort sem þeir hafa snefil af áhuga á knattspyrnu eður ei. Sérstakir gestir eru knattspyrnukrakkar úr Dölum og ungmennafélögum allsstaðar í Borgarfirði.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karla, og fyrrverandi þjálfari Skallagríms mætir á svæðið ásamt stjörnum úr knattspyrnulandsliðum karla og kvenna. Stórleikur í 3. deildinni: Skallagrímur – Tindastóll. Leðjubolti, trjónubolti, slárskotkeppni, ýmsar knattþrautir og í lokin grillveisla í Skallagrímsgarði. Stanslaust stuð frá morgni og fram eftir degi.
Dagskrá:
Kl. 11.00 Æfingasvæði Skallagríms, við íþróttamiðstöðina í Borgarnesi: Æfingar hjá öllum yngri flokkum. Gestir úr öðrum félögum í Borgarfirði og Dölum taka þátt í æfingunni. Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karla og störnur úr karla – og kvennalandsliðum Íslands í knattspyrnu aðstoða við þjálfun.
Kl. 12.00 Æfingasvæði Skallagríms: Hádegishlé. – Ungar knattspyrnuhetjur fá nesti á vellinum.
Kl. 12.30 Englendingavík: Leðjubolti – Tvö stjörnulið takast á í sannkölluðum leðjuslag á leirunum í Englendingavík .
Kl. 13.00 Æfingasvæði Skallagríms: Knattþrautir KSÍ, Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, stýrir knattþrautum fyrir krakka á öllum aldri.
Kl. 14.00 Skallagrímsvöllur: Stórleikur í 3. deildinni. Skallagrímur – Tindastóll.
Trjónubolti í leikhléi, tvö úrvalslið reyna með sér í þessari finnsku í þróttagrein.
Kl. 16.00 Æfingasvæði Skallagríms: Fótboltakeppni í ýmsum útfærslu fyrir unga sem aldna.
Sláarskotakeppni
Vítakeppni
Radarmælingar – hver er skotfastastur?
Fótboltagolf – hver er hittnastur?
Ýmislegt fleira fótboltatengt.
Kl. 17.00 Grillveisla í Skallagrímsgarði: Grillaðar pylsur í boði fyrir krakkana. Fullorðnum velkomið að koma með sitt ket á grillið.
Létt tónlist í garðinum og verðlaunaafhending.
Allan daginn í tjaldi við íþróttasvæðið:
Stuðningsmannasýning: Áhangendum hinna ýmsu liða, hvort sem er á Íslandi, Englandi, eða annarsstaðar er boðið að sýna sitt „stuðningsmannadót“ hvort sem er treyjur, fánar, klukkur, gardínur eða gúmmískór. Upplagt fyrir stuðningsmenn einstakra liða að taka sig saman.
Þar verða einnig til sýnis myndir úr starfi Knattspyrnudeildar Skallagríms.
Skiptiskómarkaður Skallagríms: Tækifæri fyrir þá sem eru vaxnir upp úr takkaskónum, eða öðrum íþróttaskóm að koma með þá og skipta!
Knattspyrnudeild Skallagríms.
Nánari upplýsingar veitir Gísli í síma 899 4098