IsNord

júní 7, 2011
Hin árlega tónlistarhátíð IsNord verður haldin helgina 10. – 12. júní. Þrennir tónleikar verða haldnir að þessu sinni, í Borgarnesi, Reykholtskirkju og Stefánshelli. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Jónína Erna Arnardóttir píanóleikari og meðstjórnandi er Margrét Guðjónsdóttir.
Hátíðin hefst föstudaginn 10. júní kl. 20.30 í Borgarneskirkju með „Er sumarið kom yfir sæinn“, tónleikum helguðum tónlist Sigfúsar Halldórssonar. Sonur Sigfúsar, Gunnlaugur, verður kynnir á tónleikunum og segir frá Sigfúsi og lögum hans. Auk hans koma fram Guðrún Ingimars, Bergþór Pálsson og Jónína Erna Arnardóttir.
 
Laugardaginn 11. júní kl. 16.00 Ástríður og Chopin. Einleikstónleikar í Reykholtskirkju með Ástríði Öldu Sigurðardóttur píanóleikara. Ástríður er ættuð úr Borgarfirðinum og einn af fremstu píanóleikurum á Íslandi í dag.
Sunnudaginn 12. júní kl. 16.00 tónleikar í Stefánshelli (tilheyrir Surtshellakerfinu). Þar mun Voices Thules flytja miðaldatónlist í viðeigandi umhverfi. Voices Thules eru sönghópur sem samanstendur af fimm hljómlistarmönnum, en þeir hafa getið sér gott orð fyrir flutning sinn á miðaldatónlist.

Markmið hátíðarinnar er að fylgjast með því sem er að gerast hjá ungum tónskáldum en einnig að flytja sígild verk eldri tónskálda sem mættu heyrast oftar. Hátíðin leggur einnig mikið upp úr að í hópi flytjenda og tónskálda séu listamenn sem eru búsettir í eða ættaðir úr Borgarfirði.
Miðaverð er 2.000
Allar nánari upplýsingar má finna á vefnum www.isnord.is

 

Share: