Þær Theodóra Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Þorsteinsdóttir koma fram á háskólatónleikum í Hriflu miðvikudaginn 27. maí næstkomandi. Tónleikarnir hefjast klukkan 17. 00 og eru öllum opnir. Aðgangur er ókeypis.
Theodóra Þorsteinsdóttir sópransöngkona er Borgnesingur. Hún stundaði nám í Tónlistarskóla Borgarfjarðar á yngri árum. Theodóra stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík, lengst af hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, en einnig hjá Önnu Júlíönu Sveinsdóttur, Sigurveigu Hjaltested og Snæbjörgu Snæbjarnardóttur og lauk söngkennaraprófi vorið 1987. Theodóra stundaði söngnám í Vínarborg hjá Helene Karusso og hefur þar að auki sótt mörg námskeið í söng, m.a. hjá Erik Werba, Rinu Malatrasi og André Orlowitz.
Theodóra tók þátt í mörgum uppfærslum hjá Íslensku óperunni til ársins 1991 og er félagi í Óperukórnum í Reykjavík. Haustið 2004 söng Theodóra einsöng með Óperukórnum í óratoríunni Elía eftir Mendelssohn í Carnegie Hall í New York.
Theodóra hefur víða komið fram sem einsöngvari hérlendis og erlendis, haldið einsöngstónleika og sungið inn á geisladiska. Hún söng hlutverk Saffiar í Sígaunabaróninum eftir Johann Strauss sem settur var upp í Borgarnesi 2008.
Theodóra hefur raddþjálfað fjölda kóra í Borgarfjarðarhéraði og víðar, kennt söng við Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Stykkishólms og er nú skólastjóri og söngkennari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir fæddist í Kaupmannahöfn, en ólst upp hjá tónelskri fjölskyldu sinni á Hvanneyri og síðar í Reykjavík. Ingibjörg hóf píanónám í Barnamúsikskólanum hjá Sigríði Einarsdóttur, hélt áfram píanónámi hjá Halldóri Haraldssyni og síðast hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Eftir stúdentspróf fór Ingibjörg í píanókennaradeildina í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Að loknu kennaraprófinu dvaldi hún í London í 3 ár og stundaði nám við Guildhall School of Music and Drama þar sem aðalkennari hennar var Mary Peppin.
Þegar til Íslands kom að loknu einleikaraprófi, settist Ingibjörg að í Borgarnesi þar sem hún var píanókennari og undirleikari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Hún tók þátt í tónlistarlífi héraðsins á ýmsum sviðum. Síðar flutti hún til Stykkishólms og kenndi þar við Tónlistarskólann, greip í organistastörf og var síðast skólastjóri við skólann.
Ingibjörg hefur oft komið fram á tónleikum bæði innan lands og utan, oftast sem meðleikari og kórstjóri. Nú kennir Ingibjörg við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.
Theodóra og Ingibjörg hafa starfað saman að tónlistarflutningi til margra ára, hafa m.a. haldið saman tónleika og gefið út geisladisk.
Á tónleikunum í Hriflu flytja þær sönglög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, grísk þjóðlög eftir Ravel, Sígaunaljóð eftir Dvorák auk óperuaría og laga úr söngleikjum.