Dansstúdíó í Mennta- og menningarhúsi

maí 26, 2010
Nýverið var undirritaður samningur milli Borgarbyggðar og Evu Karenar Þórðardóttur danskennara um leigu á sal í Mennta- og menningarhúsinu í Borgarnesi. Eva Karen tekur á leigu 350fm sal í kjallara hússins og þar mun hún innrétta dansstúdíó sem hún hyggst opna næsta haust. Dansíþróttin hefur undanfarin ár notið mikilla vinsælda hér í Borgarbyggð ekki síst fyrir tilstilli Evu Karenar en hún hefur sinnt danskennslu af miklum dugnaði. Stórir hópar fólks á öllum aldri æfa nú danslistina og stofnað hefur verið Dansfélag Borgarfjarðar. Dansstúdíóið og Dansfélagið eru kærkomin viðbót við þá fjölbreyttu íþrótta- og afþreyingarmöguleika sem fyrir eru í Borgarbyggð.
 

Share: